Handbolti

„Alltaf meira en til í að spila fyrir íslenska landsliðið“

Sindri Sverrisson skrifar
Kristján Örn Kristjánsson í sigurleiknum gegn Brasilíu á HM í janúar.
Kristján Örn Kristjánsson í sigurleiknum gegn Brasilíu á HM í janúar. VÍSIR/VILHELM

„Ef að kallið kemur þá segi ég já, hundrað prósent,“ segir Kristján Örn Kristjánsson aðspurður hvort að hann gefi kost á sér í íslenska landsliðið í lok apríl þegar liðið lýkur undankeppni EM með tveimur leikjum. Hann missti af síðustu landsleikjum vegna andlegra veikinda.

Kristján og markvörðurinn Björgvin Páll Gústavsson koma því til með að spila saman að nýju með landsliðinu í apríl, en Kristjáni sárnuðu skilaboð frá Björgvini í aðdraganda þess að þeir mættust í leik PAUC og Vals í Evrópudeildinni í febrúar. 

Taldi Kristján skilaboðin, sem tengdust hans andlegu veikindum, niðrandi en Björgvin hefur sagt tilganginn með þeim að fá Kristján til að endurhugsa endurkomu sína og setja heilsuna í fyrsta sætið. 

Kristján spilaði á HM í janúar í Svíþjóð en var ekki með í síðustu leikjum landsliðsins, gegn Tékkum í byrjun mars, þar sem hann hafði verið í veikindaleyfi vegna kulnunar hjá félagsliði sínu PAUC í Frakklandi.

Kristján kveðst hins vegar kominn á góðan stað andlega í dag og hann hefur spilað síðustu tvo leiki PAUC, og látið til sín taka með samtals níu mörkum.

Tvær skyttur meiddar og Ísland þarf tvo sigra

Íslenska landsliðið þarf enn frekar en áður á kröftum Kristjáns að halda í apríl, í leikjunum við Eistland og Ísrael, vegna meiðsla hjá öðrum hægri skyttum liðsins. Ísland þarf eflaust að vinna báða leiki til að tryggja sér efsta sæti síns riðils, sem væri dýrmætt því þá myndi liðið verða í efsta styrkleikaflokki fyrir EM-dráttinn og sleppa við að lenda í riðli með einhverju af bestu liðum Evrópu.

Ómar Ingi Magnússon hefur verið aðalskytta Íslands hægra megin á vellinum en hann er meiddur, og nýverið meiddist Viggó Kristjánsson einnig svo að hann spilar ekki meira á þessari leiktíð.

„Þetta er víst einhver plága þarna hægra megin,“ sagði Kristján glettinn í samtali við Vísi í vikunni.

„Ég sá einmitt fréttina um að Viggó hefði slitið aftan í læri, svo það er ennþá meiri pressa á hægri skyttustöðuna. Við þurfum að standa okkur í næsta verkefni. Þetta er ekki búið og við þurfum að koma okkur inn á EM í sem sterkastri stöðu. Ég er alltaf meira en til í að spila fyrir íslenska landsliðið,“ sagði Kristján en fleiri búta úr ítarlegu viðtali hans við Vísi má nálgast hér að neðan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×