Skoðun

Gamla hjólið þitt getur glatt barn

Linda Hrönn Þórisdóttir skrifar

Í hjólageymslum og bílskúrum út um allan bæ leynast hjól sem ekki eru í notkun. Hjól sem taka óþarfa pláss enda oftar en ekki í málmpressu á endurvinnslustöðum þegar þau loksins verða fyrir barðinu á árlegri vorhreingerningu húsfélagsins eða endurskipulagningu í bílskúrnum. Á sama tíma eru fjölmörg börn og ungmenni sem eiga ekki hjól og geta því ekki tekið þátt í þeirri hjólamenningu sem er ríkjandi. Þar með missa þau af að geta mætt á eigin hjólum á hjóladag í skólanum, hjólað um allar trissur með félögum sínum og þar með efla félagslegan og líkamlegan þroska.

Árlega fá um 300 börn og ungmenni hjól úr Hjólasöfnun Barnaheilla – Save the Children á Íslandi. Þetta eru börn sem búa við þannig fjárhagslegar og/eða félagslegar aðstæður að þeim gefst ekki af öðrum kosti tækifæri til að eignast hjól. Oftar en ekki eru börn að fá í hendurnar sitt fyrsta hjól og sjá þar með loksins fram á að geta tekið þátt í hjólamenningunni jafnt á við önnur börn.

Um 10.000 börn eða 13,1% búa við fátækt á Íslandi og um eitt af hverjum fjórum heimilum eiga erfitt með að standa straum af daglegum útgjöldum. Þetta kemur fram í nýútkominni skýrslu Barnaheilla. Með hjólasöfnuninni er með beinum hætti stuðlað að jöfnum tækifærum allra barna. Á öllum móttökustöðvum Sorpu á höfuðborgarsvæðinu eru nú merktir gámar fyrir hjól sem ekki eru í notkun meðan á söfnuninni stendur, til 1. maí næstkomandi. Hjólin eru reglulega sótt og sjálfboðaliðar sjá um að gera við hjólin undir styrkri leiðsögn Reiðhjólabænda sem eru nýr samstarfsaðili í verkefninu. Viðgerðum hjólum er svo úthlutað í gegnum félags- og fjölskylduþjónustu sveitarfélaga.

Með því að gefa börnum tækifæri á að eignast hjól er ekki eingöngu stuðlað að aukinni þátttöku þeirra í samfélaginu eins og kveðið er á um í Barnasáttmálanum heldur er staða allra barna jöfnuð. Börn fá með hjólreiðum tækifæri til að efla þol, styrk og fá heilbrigða útrás. Sjálfbærni er auk þess sterk skírskotun í verkefnið en hjól fá lengra líf í stað þess að verða pressuð. Þetta er í tólfta sinn sem söfnunin er haldin en frá upphafi hafa um 3.500 börn notið góðs af verkefninu.

Ef þú lumar á hjóli sem ekki er í notkun getur þú komið því á endurvinnslustöðvar Sorpu á höfuðborgarsvæðinu. Sjálfboðaliðar eru einnig velkomnir að hjálpa til við viðgerðir á hjólunum svo öll börn og ungmenni sem á þurfa að halda fái hjól.

Höfundur er leiðtogi innlendra verkefna hjá Barnaheillum – Save the Children á Íslandi.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×