Körfubolti

Guðbjörg tekur við sem formaður KKÍ eftir að Hannes sagði af sér

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Guðbjörg Norðfjörð Elíasdóttir afhendir Kára Jónssyni verðlaun sem besti leikmaður lokaúrslitanna í fyrra.
Guðbjörg Norðfjörð Elíasdóttir afhendir Kára Jónssyni verðlaun sem besti leikmaður lokaúrslitanna í fyrra. Vísir/Bára

Hannes S. Jónsson, formaður og framkvæmdastjóri Körfuknattleikssambands Íslands, hefur sagt af sér sem formaður KKÍ. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá KKÍ.

Þessi ákvörðun Hannesar, sem hefur verið formaður í sautján ár, kemur í kjölfarið af því að á 55. körfuknattleiksþingi KKÍ þann 25. mars síðastliðinn var samþykkt breyting á lögum um skipulag stjórnar KKÍ og aðskilnað starfa formanns og framkvæmdastjóra sambandsins.

Í breyttum lögum er tilgreint að stjórn KKÍ skuli ráða framkvæmdastjóra en jafnframt að framkvæmdastjóri megi ekki sitja í stjórn sambandsins.

Þetta kallaði á viðbrögð og það stóð ekki á þeim.

Hannes sagði af sér á fyrsta fundi nýrrar stjórnar sambandsins sem þýðir að varaformaður stjórnar, Guðbjörg Norðfjörð Elíasdóttir, tekur við sem formaður sambandsins og mun hún gegna því hlutverki fram að næsta ársþingi KKÍ vorið 2025.

Guðbjörg er fyrsta konan í næstum því fjörutíu ár til að vera formaður KKÍ eða síðan að Þórdís Anna Kristjánsdóttir gegndi formennsku veturinn 1983-84.

Ný stjórn samþykkti samhliða þessu að fela nýjum formanni að staðfesta áframhaldandi ráðningarsamning við Hannes S. Jónsson sem framkvæmdastjóra sambandsins.

  • Stjórn Körfuknattleikssambands Íslands
  • Guðbjörg Norðfjörð Elíasdóttir formaður
  • Birna Lárusdóttir 1. varaformaður
  • Lárus Blöndal 2. varaformaður
  • Guðrún Kristmundsdóttir gjaldkeri
  • Ágúst Angantýsson meðstjórnandi
  • Einar Hannesson meðstjórnandi
  • Heiðrún Kristmundsdóttir meðstjórnandi
  • Herbert Arnarson meðstjórnandi
  • Jón Bender meðstjórnandi

Það má lesa fréttatilkynninguna hér.

Ný stjórn KKÍ ásamt nýjum formanni Guðbjörgu Norðfjörð Elíasdóttur og framkvæmdastjóranum Hannesi S. Jónssyni. Stjórnarfólkið er Birna Lárusdóttir, Lárus Blöndal, Guðrún Kristmundsdóttir, Ágúst Angantýsson, Einar Hannesson, Herbert Arnarson og Jón Bender.  Það vantar Heiðrúnu Kristmundsdóttur á myndina.KKÍFleiri fréttir

Sjá meira


×