Handbolti

Árni Bragi valdi Aftureldingu fram yfir Val

Smári Jökull Jónsson skrifar
Árni Bragi verður áfram í Mosfellsbænum.
Árni Bragi verður áfram í Mosfellsbænum. Vísir/Hulda Margrét

Árni Bragi Eyjólfsson hefur framlengt samning sinn við Aftureldingu til næstu þriggja ára. Greint er frá þessu á Facebooksíðu Aftureldingar en Árni Bragi hafnaði tilboði frá Íslandsmeisturum Vals.

Árni Bragi Eyjólfsson er einn af lykilmönnum Aftureldingar sem varð bikarmeistari á dögunum eftir sigur á Haukum í spennandi úrslitaleik.

Í morgun greinir handknattleiksdeild Aftureldingar frá því á Facebook að Árni Bragi hafi framlengt samning sinn við félagið til næstu þriggja ára en undanfarnar vikur hefur verið orðrómur í gangi um að Árni Bragi væri á leið úr Mosfellsbænum.

Samkvæmt öruggum heimildum Vísis var Árni Bragi með tilboð frá Íslandsmeisturum Vals á borðinu en hann hefur hins vegar ákveðið að framlengja við Mosfellinga sem eru gleðifréttir fyrir nýkrýnda bikarmeistara.

Árni Bragi hefur skorað 104 mörk fyrir Aftueldingu í vetur og er í sjötta sæti yfir markahæstu leikmenn deildarinnar auk þess sem hann hefur gefið 66 stoðsendingar á félaga sína.

Hann lék sem atvinnumaður í Danmörku um skeið en sneri aftur til Íslands árið 2020 og gekk þá til liðs við KA. Þar spilaði hann í eitt tímabil áður en hann sneri aftur í Mosfellsbæinn þar sem hann hafði áður leikið á ferli sínum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×