Körfubolti

Þjálfarinn fór úr að ofan

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Eric Musselman fagnar með stuðningsfólki Arkansas eftir sigurinn Kansas í úrslitakeppni bandaríska háskólakörfuboltans um helgina.
Eric Musselman fagnar með stuðningsfólki Arkansas eftir sigurinn Kansas í úrslitakeppni bandaríska háskólakörfuboltans um helgina. AP/Charlie Neibergall

Eric Musselman, þjálfari háskólaliðs Arkansas, skóla vakti mikla athygli um helgina og það voru tvær ástæður fyrir því.

Í fyrsta lagi unnu strákarnir hans mjög óvæntan sigur á Kansas í Marsfárinu en Kansas var raðað númer eitt í þessum fjórðungshluta úrslitakeppninnar.

Það voru hins vegar fagnaðarlæti Musselman sem vöktu ekki síður athygli á sigri strákanna hans.

Hinn 58 ára gamli Musselman hefur þjálfað lengi og þar á meðal lið Golden State Warriors og Sacramento Kings í NBA-deildinni í körfubolta.

Musselman réði sér ekki úr kæti eftir leikinn og ákvað að rífa sig úr að ofan. Ekki oft sem maður sér slík viðbrögð hjá þjálfurum eftir leik hvað þá þegar þeir eru að nálgast sextugsafmælið og hafa þjálfað í meira en þrjá áratugi.

Arkansas vann leikinn með minnsta mun eða 72-71. Þetta var annað árið í röð sem Arkansas strákarnir slá út lið sem vara raðað númer eitt því Gonzaga datt út á móti þeim í fyrra.

Með sigrinum tryggði Arkansas liðið sér sæti í sextán liða úrslitunum eða í „Sweet 16“ eins og Bandaríkjamaðurinn kallar það.

„Ég hef verið lengi í þjálfun og hef ekki unnið flottari sigur vegna þess hve Kansas á sér mikla sögu. Fjöldi fólks hélt að við myndum detta úr leik strax í fyrstu umferð,“ sagði sigurreifur Eric Musselman eftir leikinn.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×