Handbolti

Fram­konur for­dæma við­bragðs­leysi við ó­sæmi­legri hegðun

Sindri Sverrisson skrifar
Framkonur vilja undirstrika að kynbundið áreiti og ofbeldi megi ekki líðast.
Framkonur vilja undirstrika að kynbundið áreiti og ofbeldi megi ekki líðast. VÍSIR/HULDA MARGRÉT

Leikmenn kvennaliðs Fram í handbolta hafa sent frá sér yfirlýsingu til stuðnings þolenda kynbundinnar áreitni og ofbeldis, og fordæma það sem þær telja vera viðbragðsleysi handboltahreyfingarinnar við ósæmilegri hegðun og brotum.

Yfirlýsing Framkvenna kemur í kjölfar úrskurðar aganefndar HSÍ sem setti Sigurð Bragason, þjálfara kvennaliðs ÍBV, í tveggja leikja bann vegna óviðeigandi hegðunar eftir sigur ÍBV á Val í Olís-deildinni á dögunum.

Sigurður var meðal annars sakaður um að hafa slegið liðsstjóra Vals tvívegis í rassinn en ÍBV sagði um vinalegt klapp á mjöðm að ræða.

Aganefnd taldi ekki hægt að úrskurða um málið þar sem að orð stæði gegn orði. Tveggja leikja bannið var vegna almennrar hegðunar Sigurðar eftir leikinn þar sem hann þótti sýna óíþróttamannslega framkomu með því að fagna fyrir framan hóp Valsara og einnig með því að segja leikmanni Vals að „fokka sér“.

Á Instagram-reikningi Framkvenna var í dag birt yfirlýsing til stuðnings þolenda, þar sem önnur lið voru jafnframt hvött til að láta í sér heyra. Þær segja að miklar væntingar hafi verið meðal íþróttakvenna í kjölfar metoo-hreyfingarinnar, um að áreiti og ofbeldi gegn þeim yrði upprætt, en því miður sýni reynslan að svo sé ekki.

Yfirlýsinguna má lesa hér að neðan:

Sigurður tekur út seinni leik sinn í banni í dag þegar ÍBV mætir Selfossi í Laugardalshöll, í undanúrslitum Powerade-bikarsins. Rétt áður mætast Haukar og Valur í hinum undanúrslitaleiknum. Því er ekki útilokað að ÍBV og Valur mætist í úrslitaleik á laugardaginn sem jafnframt yrði þá fyrsti leikur Sigurðar á hliðarlínunni eftir bannið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×