Handbolti

„Sóknarleikurinn er skammarlegur fyrir lið eins og okkur“

Smári Jökull Jónsson skrifar
Aron Pálmarsson var ómyrkur í máli eftir leikinn í kvöld.
Aron Pálmarsson var ómyrkur í máli eftir leikinn í kvöld. Vísir/Vilhelm

Aron Pálmarsson fyrirliði íslenska landsliðsins í handknattleik var ómyrkur í máli eftir tap gegn Tékkum í Brno í kvöld. Hann sagði frammistöðu liðsins hafa verið skelfilega.

„Bara skelfilegt, skelfileg frammistaða hjá okkur. Uppleggið fannst mér fínt og það sem við vorum að reyna að gera fannst mér allt í lagi þegar við vorum að reyna að teygja á þeim. Við framkvæmum hlutina bara eins og einhverjir byrjendur,“ sagði Aron í viðtali sem Gunnar Birgisson tók við hann eftir leik og birtist á RÚV.

„Þegar við náum að gera það allt í lagi og komast í gegn þá látum við hann verja frá okkur trekk í trekk. Sóknarleikurinn er skammarlegur fyrir lið eins og okkur,“ bætti Aron við en þetta var fyrsti leikur Íslands eftir að Guðmundur Guðmundsson hætti sem landsliðsþjálfari.

Fyrir heimsmeistaramótið í Svíþjóð og Póllandi í janúar voru margir sem spáðu Íslandi góðu gengi. Aron sagði ljóst að liðið væri ekki á þeim stað sem margir héldu að það væri fyrir HM.

„Nei, ekki í dag. Við erum bara ekki þar í dag og það er augljóst. Við skorum sautján mörk í einum handboltaleik og við erum ekki betri en það nákvæmlega núna. Gæðin í liðinu eru þannig en við erum ekki að spila þannig.“

„Það sem við erum að gera á vellinum sóknarlega er okkur til skammar. Við erum með menn að toppa á sínum ferli, ég með mína reynslu er að gera barnaleg mistök trekk í trekk. Þetta er eitthvað sem við þurfum alvarlega að skoða.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×