Handbolti

Þórir hrifinn af íslenska liðinu og segir möguleikana gegn Ungverjum ágæta

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Íslenska landsliðið hefur ekki komist á HM síðan 2011.
Íslenska landsliðið hefur ekki komist á HM síðan 2011. vísir/hulda margrét

Þórir Hergeirsson telur Íslendinga eiga ágætis möguleika gegn Ungverjum í umspili um sæti á HM á þessu ári.

B-landslið Noregs í handbolta kvenna kom hingað til lands í síðustu viku og lék tvo leiki gegn A-landsliði Íslands á Ásvöllum. Liðin skiptu sigrunum á milli sín. Ísland vann leik liðanna á fimmtudaginn, 31-26, en Noregur svaraði fyrir sig með endurkomusigri á laugardaginn, 26-29.

Leikirnir voru hluti af undirbúningi Íslands fyrir leikina gegn Ungverjalandi í umspili um sæti á HM í næsta mánuði. Þórir segir að Íslendingar séu sannarlega ekki sigurstranglegri aðilinn en möguleikinn sé til staðar.

„Þær eru hundrað prósent lítilmagnarinn og það getur verið mjög gott. En það er mjög góður strúktúr í þessu hjá þeim, þau eru að taka ný skref og það eru leikmenn sem eru í framför. Þetta er að tosast í rétta átt,“ sagði Þórir.

„Á toppdegi er hægt að stríða þessu ungverska liði en yfir tvo leiki getur það verið erfitt. En það er góður möguleiki á að ná góðum úrslitum gegn þeim ef allt gengur upp. Ef íslenski eldmóðurinn er með alla leið“

Þórir segir að ungverska liðið sé sterkt en búi ekki yfir mikilli reynslu. „Það er ungt og efnilegt. Það er búið að skipta út mörgum reynslumiklum leikmönnum en það er með margar góðar handboltastelpur. Þær fá alltaf upp hæfileikaríka leikmenn,“ sagði Þórir að endingu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×