Formúla 1

Verstappen sigraði fyrsta kappakstur tímabilsins

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Max Verstappen fagnar með Red Bull liðinu eftir kappaksturinn.
Max Verstappen fagnar með Red Bull liðinu eftir kappaksturinn. Vísir/Getty

Tvöfaldi heimsmeistarinn Max Verstappen kom fyrstur í mark þegar fyrsti kappakstur tímabilsins í Formúlu 1 fór fram í Barein í dag.

Verstappen hóp keppni á ráspól og hann leiddi kappaksturinn frá upphafi til enda, ef frá er talinn um það bil einn hringur þegar liðsfélagi hans hjá Red Bull, Sergio Perez, tók forystuna eftir að Verstappen fór inn á þjónustusvæðið.

Þetta var nánast fullkomin helgi fyrir Red Bull liðið því Perez kom annar í mark og Red Bull nældi sér því í 43 stig í heimsmeistarakeppni bílasmiða.

Þá skemmdi það heldur ekki fyrir Red Bull liðinu að þeirra helstu keppinautar áttu ekki frábæran dag í Barein. Aðeins annar ökumaður Ferrari komst í mark í dag því Charles Leclerc, sem hafði verið þriðji stærstan hluta keppninnar, þurfti að draga sig úr keppni vegan vélabilunnar og þá höfnuðu Mercedes mennirnir Lewis Hamilton og George Russell í fimmta og sjöunda sæti.

Gamla brýnið Fernando Alonso á Aston Martin gerði Red Bull liðinu svo enn frekari greiða þegar hann elti uppi Carlos Sainz á Ferrari og hirti af honum þriðja sætið. Sains endaði því fjórði og liðsfélagi Alonso hjá Aston Martin, Lance Stroll, kom sjötti í mark.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×