Umfjöllun og viðtöl: Breiðablik - Tindastóll 94-100 | Stólarnir að slíta sig frá Blikum

Dagur Lárusson skrifar
Tindastóll vann mikilvægan sigur í baráttunni um fimmta sæti Subway-deildarinnar í kvöld.
Tindastóll vann mikilvægan sigur í baráttunni um fimmta sæti Subway-deildarinnar í kvöld. Vísir/Diego

Tindastóll vann mikilvægan sex stiga sigur er liðið tók á móti Breiðablik í Subway-deild karla í körfubolta í kvöld, 94-100. Liðin sitja í 5. og 6. sæti Subway-deildarinnar og með sigrinum náðu Stólarnir fjögurra stiga forskoti á Blika.

Tindastóll hafði betur gegn Breiðablik í Subway-deild karla í körfubolta í kvöld eftir hreint út sagt magnaða endurkomu.

Fyrir leikinn voru liðin í fimmta og sjötta sæti deildarinnar, Tindastóll með átján stig á meðan Breiðablik var með sextán stig.

Í fyrri hálfleiknum voru það Blikar sem voru með yfirhöndina nánast allan tímann og þá sérstaklega í öðrum leikhluta. Gestirnir voru með forystuna fyrstu fimm mínútur leiksins en eftir það fóru Blikar í gang og gestirnir réðu ekkert við þá. Staðan eftir fyrsta leikhluta var 32-26 og eftir annan leikhluta var staðan orðin 56-41 og Blikar fóru því með sautján stiga forystu í hálfleikinn. Everage, Jeremy, Danero og Julio allir að leika á alls oddi.

Í byrjun þriðja leikhluta var það sama uppi á teningnum. Gestirnir héldu áfram að gefa boltann frá sér og Blikar óðu upp völlinn trekk í trekk og juku forskot sitt. Eftir að fjórar mínútur voru liðnar af þriðja leikhluta tók Pavel sitt þriðja leikhlé og þá virtist eitthvað breytast hjá gestunum. Davis Geks kom inná og setti niður þriggja stiga körfu og það kveikti aldeilis í liðinu og við tók frábær kafli hjá þeim þar sem forystu Breiðabliks fór niður með hverri mínútunni sem leið og allt í einu voru gestirnir komnir með forystuna, hreint út sagt ótrúlegur viðsnúningur á aðeins fjórum til fimm mínútum.

Liðin fóru hnífjöfn inn í síðasta leikhlutann en þar virtist stemningin hjá gestunum, á vellinum og í stúkunni, skila sigrinum og Tindastóll vann því að lokum sigur 94-100. Tindastóll er því komið með tuttugu stig í deildinni.

Stigahæstur hjá Tindastól var Antonio Woods með 30 stig og á eftir honum voru það Sigtryggur með 20 stig og Davis Geks með 18 stig. Everage var að vanda stigahæstur hjá Blikum með 23 stig.

Af hverju vann Tindastóll?

Ég er hræddur um það að leikmenn Breiðabliks hafi farið smá á taugum þarna um miðbik þriðja leikhluta þegar nokkrar þriggja stiga körfu komu hjá gestunum og stúkan þeirra fór að taka við sér. Það var ekki sjón að sjá liðið, að minnsta kosti miðað við það hvernig liðið spilaði í fyrri hálfleiknum.

Hverjir stóðu uppúr?

Antonio Woods var frábær og dró liðið áfram í fyrri hálfleiknum. Það má þó segja að það hafi verið Davis Geks sem kom þessari mögnuðu endurkomu af stað með sinni frábæru innkomu, hann setti hvernig þristinn niður á fætur öðrum.

Hvað fór illa?

Það leit út fyrir það að taugarnar hafi ekki verið nægilega sterkar hjá Breiðablik þegar gestirnir fóru að taka við sér í þriðja leikhluta. Tuttugu stiga forskot farið á aðeins fjórum til fimm mínútum er alls ekki venjulegt.

Hvað gerist næst?

Næsti leikur Tindastóls er gegn Haukum næsta fimmtudag og næsti leikur Breiðabliks er gegn Stjörnunni það sama kvöld.

Pavel Ermolinskij: Alvöru endurkomusigur

Pavel Ermolinskij, þjálfari Tindastóls.Vísir/Hulda Margrét

„Já, það má svo sannarlega kalla þetta alvöru endurkomu sigur,” byrjaði Pavel Ermolinskij, þjálfari Tindastóls, að segja í viðtali eftir leik.

„Þetta var frábærlega gert hjá strákunum að koma til baka eftir þennan lélega fyrri hálfleik. Ég veit eiginlega ekki hvernig mér á að líða, ég er ánægður að hafa unnið þennan leik, ég er ánægður með það að hann sé búinn og nú getum við horft fram á við,” hélt Pavel áfram að segja.

Spilamennska Tindastóls var mikið mun betri í seinni hálfleiknum og vildi Pavel þakka varnarleiknum fyrir það.

„Við fórum einfaldlega að loka teignum, við féllum í þá gryfju í fyrri hálfleiknum að við ætluðum að fara að spila einn á einn gegn Blikunum sem eru mjög góðir í því og ég man ekki eftir því að þeir hafi klikkað á skoti inni í teig í fyrri hálfleiknum.”

Pavel vildi síðan einnig þakka stuðninginn úr stúkunni.

„Þetta er auðvitað bara geggjað. Við vorum undir með einhverjum tuttugu stigum á útivelli og þá er rosa auðvelt að kasta leiknum frá sér og gleyma þessu en þegar maður spilar fyrir framan þetta fólk þá er það ekki hægt, það þarf svo lítið til til þess að snúa leiknum við. Þetta var ómetanlegur stuðningur í kvöld,” endaði Pavel á að segja.

Pétur Ingvarsson: Við erum að fara niður á við

Pétur Ingvarsson, þjálfari Breiðabliks.Vísir/Hulda Margrét

„Við börðumst allan leikinn en það var einfaldlega ekki nóg,” byrjaði Pétur Ingvarsson, þjálfari Breiðabliks, að segja eftir leik.

„Við hittum illa og urðum svolítið týndir, við erum svolítið að fara niður á við þessa stundina,” hélt Pétur áfram.

Spilamennska Blika var ekki sjón að sjá miðað við fyrri hálfleikinn í þeim seinni en Pétur var ekki alveg viss hvað fór úrskeiðis.

„Við fórum að klikka á nokkrum skotum og þeir refsuðu okkur fyrir það. Við fórum síðan að spila hægar heldur en við erum vanir að gera og þeir leyfðu okkur ekki að komast upp með það.”

Pétur vildi ekki meina að það vanti sterka karaktera í liðið þrátt fyrir að missa niður svona stórt forskot.

„Ég vil nú ekki meina það, þeir fóru bara að hitta meira, ef það er spurning um karakter þá getur það vel verið en ég efast um það, þetta eru topp drengir í liðinu sem leggja sig alla fram,” endaði Pétur á að segja.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira