Umfjöllun og viðtöl: Fram - Haukar 35-30 | Haukar að missa af pakkanum

Þorsteinn Hjálmsson skrifar
Þorsteinn Gauti Hjálmarsson skoraði fimm mörk fyrir Fram í kvöld.
Þorsteinn Gauti Hjálmarsson skoraði fimm mörk fyrir Fram í kvöld. VÍSIR/HULDA MARGRÉT

Fram vann sterkan fimm marka sigur er liðið tók á móti Haukum í Olís-deild karla í handbolta í kvöld. Með sigrinum stukku Framarar upp í þriðja sæti deildarinnar, en Haukar eru að missa af hinum þétta pakka sem er frá þriðja sæti og niður í það sjöunda.

Leikurinn var jafn og spennandi lengst af. Það var ekki fyrr en á síðustu tíu mínútum leiksins þar sem leikur Hauka gjörsamlega hrundi.

Leikurinn byrjaði fremur rólega, staðan 3-1 fyrir Fram eftir rúmar sex mínútur. Framarar voru skrefinu á undan næstu mínútur en Haukar reyndu að keyra hraða miðju við hvert tækifæri sem skilaði sér í því að ekki slitnaði á milli liðanna í markaskori.

Ásgeir Örn Hallgrímsson, þjálfari Hauka, tók leikhlé á 20. mínútu eftir að heimamenn höfðu skorað þrjú mörk í röð, staðan 13-10 Fram í vil. Ásgeir Örn lét vel í sér heyra í leikhléinu sem skilaði sér inn í lið Hauka og jafnaði liðið leikinn hið snarasta, 13-13. Liðin skoruðu svo hvort um sig tvö mörk fram að hálfleik. Staðan því 15-15 í hálfleik.

Athygli vakti að allt lið Hauka var látið hita upp hressilega síðustu fimm mínúturnar áður en síðari hálfleikur hófst sem er ekki ýkja algengt í Olís-deildinni.

Haukar hófu síðari hálfleikinn á því að komast í fyrsta skipti yfir í leiknum. Næstu 20 mínútur var leikurinn hörku spennandi þar sem aldrei munaði meira en tveimur mörkum á liðunum.

Sá munur var einmitt á liðunum þegar Ásgeir Örn tók leikhlé þegar tíu mínútur voru eftir, 27-25 Fram í vil. Eftir þetta leikhlé og fram að leikslokum hrundi leikur Hauka og Framarar nýttu sér alla þá tæknifeila sem rauðir Hafnfirðingar buðu upp á.

Fram komst mest í sex marka forystu á síðustu tíu mínútum leiksins og endaði að lokum á að vinna leikinn með fimm mörkum, 35-30.

Af hverju vann Fram?

Framarar héldu einfaldlega sínu striki allan leikinn og spiluðu nokkuð vel í kvöld. Þeir spiluðu á sínum styrkleikum, fengu fína markvörslu og hraðaupphlaup í kjölfarið.

Hverjir stóðu upp úr?

Annan leikinn í röð stóð Breki Hrafn Árnason, markvörður Fram, upp úr. Var þetta aðeins þriðji leikurinn í Olís-deildinni hjá þessum unga og efnilega markmanni. Breki Hrafn skilaði 16 vörðum boltum.

Stefán Orri Arnalds, hornamaður Fram, hlaut góðs af markvörslu Breka Hrafns í formi hraðaupphlaupa. Stefán Orri endaði með fimm mörk úr jafn mörgum skotum og var markahæstur í sínu liði ásamt Þorsteini Gauta Hjálmarssyni og Luka Vukicevic.

Hvað gekk illa?

Síðustu tólf mínútur leiksins hjá Haukum. Staðan var jöfn á þeim tímapunkti en þegar var flautað til leiksloka höfðu heimamenn bætt tíu mörkum við en Haukar aðeins fimm. Þetta hefur verið í raun saga Hauka á tímabilinu. Liðið virðist verða of oft, hreinlega, andlega gjaldþrota.

Hvað gerist næst?

Nú gengur í garð landsleikjapása í deildinni þar sem Ísland mætir Tékkum tvívegis, 8. og 12. mars.

Fram og Haukar mætast svo í fyrsta leik eftir landsleikjapásuna í leik í undanúrslitum Powerade-bikarsins í Laugardalshöll þann 16. mars klukkan 18:00.

Einar Jónsson neitar því að vera taka við meistaraflokki kvenna hjá Fram, eins og er

Einar Jónsson er þjálfari karlaliðs Fram.Vísir/Hulda Margrét

„Hrikalega ánægður með okkur. Við vorum bara mjög flottir í dag og nýtum þau tækifæri sem að gáfust okkur. Það er ekki yfir mörgu að kvarta þannig séð. Mér fannst aðeins í fyrri hálfleik þeir skora úr hraðri miðju á okkur, sem við erum ekki sáttir við. Við löguðum það. Sóknarleikurinn var góður, við erum agaðir. Ég get bara talað um fullt af hlutum sem voru bara drullu góðir en fyrst og fremst orkan og karakterinn í liðinu sem ég er ánægðastur með,“ sagði Einar Jónsson, þjálfari Fram, eftir sigurinn á Haukum í kvöld.

Fram mætir Haukum í næsta leik sínum í undanúrslitum Powerade-bikarsins. Einar telur leikinn í kvöld ekki hafa nein áhrif á hvernig sá leikur mun verða.

„Ég held bara að það skipti ekki neinu máli. Þeir mæta bara dýrvitlausir í þann leik, alveg eins og við. Við ætlum okkur að verða bikarmeistarar og til þess þurfum við að byrja á því að vinna Hauka.“

Nú í vikunni talaði Arnar Daði Arnarsson, sérfræðingur í Seinni bylgjunni og stjórnandi Handkastsins, að uppi væri sú umræða að Einar Jónsson skyldi þjálfa bæði meistaraflokk karla og kvenna hjá Fram á næsta tímabili. Aðspurður út í þann orðróm svaraði Einar því neitandi en dró svo aðeins í land.

„Það er ekkert ákveðið í þeim efnum. Það er bara einhver vinna hér innan félagsins sem að er í raun og veru óþarfi að svara fyrir núna. Það kemur bara í ljós hvernig næsta tímabil verður. Það er ekkert meira um það að segja,“ sagði Einar Jónsson að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira