Handbolti

Sigurður gæti misst af úrslitum vegna óviðeigandi hegðunar

Sindri Sverrisson skrifar
Sigurður Bragason mun hafa farið yfir strikið í samskiptum sínum við Valskonur eftir stórleikinn í Eyjum um síðustu helgi.
Sigurður Bragason mun hafa farið yfir strikið í samskiptum sínum við Valskonur eftir stórleikinn í Eyjum um síðustu helgi. VÍSIR/HULDA MARGRÉT

Mál Sigurðar Bragasonar, þjálfara kvennaliðs ÍBV í handbolta, er inni á borði aganefndar HSÍ en hann er sakaður um óviðeigandi hegðun í garð starfsmanns og leikmanna Vals eftir leik liðanna í Vestmannaeyjum um síðustu helgi.

ÍBV fagnaði sætum sigri í leiknum, 29-28, og komst þar með upp fyrir Val á topp Olís-deildarinnar. Sigurður var því sigurreifur eftir leik en hegðun hans og orðbragð gagnvart Valskonum eftir leik er nú til skoðunar.

Þessi sömu lið gætu mögulega mæst í bikarúrslitaleik í Laugardalshöll 18. mars, en þau eru bæði í undanúrslitunum sem fara fram þremur dögum fyrr.

Samkvæmt upplýsingum Vísis á Sigurður á hættu að fá leikbann og gæti hann því verið í banni þegar úrslitin ráðast í Powerade-bikarnum.

Aganefnd frestaði fyrirtöku

Sigurður hlaut útilokun með skýrslu frá dómurum leiksins um helgina vegna „mjög grófrar ódrengilegrar hegðunar eftir leik,“ eins og það er orðað. Telja dómararnir mál Sigurðar falla undir reglu 8:10 a) en þar er talað um móðgandi eða ógnandi hegðun sem beint er gegn öðrum aðila, og getur hegðunin verið á munnlegu eða líkamlegu formi.

Aganefnd barst einnig erindi frá framkvæmdastjóra HSÍ vegna málsins. Nefndin hefur nú frestað fyrirtöku málsins og óskað eftir greinargerð frá bæði ÍBV og Val.

Vísir leitaði viðbragða hjá framkvæmdastjóra og formanni handknattleiksdeildar ÍBV en hvorugur vildi tjá sig um málið að svo stöddu. Ekki hefur náðst í Sigurð þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×