Handbolti

Teitur markahæstur í jafntefli | Kristján og félagar úr leik þrátt fyrir stórsigur

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Teitur Örn Einarsson skoraði sex mörk fyrir Flensburg í kvöld.
Teitur Örn Einarsson skoraði sex mörk fyrir Flensburg í kvöld. Frank Molter/picture alliance via Getty Images

Teitur Örn Einarsson var markahæsti maður Flensburg er liðið gerði jafntefli gegn Ferencváros í Evrópudeildinni í handbolta í kvöld, 27-27. Þau úrslit þýða að Kristján Örn Kristjánsson og félagar hans í franska liðinu PAUC eru úr leik, þrátt fyrir tíu marka sigur gegn Benidorm á sama tíma, 39-29.

Teitur og félagar höfðu þegar tryggt sér sigur í B-riðli Evrópudeildarinnar fyrir leik kvöldsins og því var ekki að miklu að keppa fyrir liðið. Ferencváros þurfti hins vegar lífsnauðsynlega að krækja í stig í það minnsta til að koma sér í 16-liða úrslit og því var mikið undir fyrir ungverska liðið.

Ungverjarnir höfðu yfirhöndina framan af leiknum og liðið leiddi með tveimur mörkum þegar flautað var til hálfleiks, staðan 15-13. Liðið náði mest fimm marka forystu snemma í síðarig hálfleik, en gestirnir í Flensburg skoruðu þá sex mörk í röð og snéru leiknum sér í vil.

Flensburgarliðið hafði góð tök á leiknum lengi vel eftir það og náði mest þriggja marka forskoti í stöðunni 23-26 þegar skammt var til leiksloka. Heimamenn skoruðu þó fjögur af seinustu fimm mörkum leiksins og tryggðu sér þar með dýrmætt stig og á sama tíma sæti í 16-liða úrslitum. 

Teitur Örn Einarsson skoraði sex mörk fyrir Flensburg í kvöld og var markahæsti maður liðsins, ásamt Hans Aaron Mensing. Flensburg endar í efsta sæti B-riðils með 17 stig, en Ferencváros í því fjórða með átta stigum minna.

Á sama tíma vann franska liðið PAUC öruggan tíu marka sigur gegn Benidorm, 39-29. Þar sem Ferencváros náði í stig gegn Flensburg dugði sigurinn þó ekki til og PAUC endar í fimmta sæti riðilsins með átta stig. Kristján Örn Kristjánsson var ekki með franska liðinu í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×