Innherji

Telur söluna í ISB hafa tekist sérstak­lega vel til í „veiga­mestu at­riðunum“

Hörður Ægisson skrifar
Hildur Sverrisdóttir, annar af tveimur fulltrúum Sjálfstæðisflokksins í nefndinni, segir að heilt yfir hafi salan í Íslandsbanka tekist vel og þá sérstaklega í veigamestu atriðunum um verð, frávik frá dagslokagengi og aðstæður á eftirmarkaði þó einstaka aðrir þættir hefðu getað verið vandaðri.
Hildur Sverrisdóttir, annar af tveimur fulltrúum Sjálfstæðisflokksins í nefndinni, segir að heilt yfir hafi salan í Íslandsbanka tekist vel og þá sérstaklega í veigamestu atriðunum um verð, frávik frá dagslokagengi og aðstæður á eftirmarkaði þó einstaka aðrir þættir hefðu getað verið vandaðri. Vísir/Vilhelm

Meirihluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar segir í áliti sínu um skýrslu Ríkisendurskoðunar um sölu á rúmlega fimmtungshlut ríkisins í Íslandsbanka í fyrra að „óumdeilt“ sé að ekki hafi verið „raunhæft, faglegt eða skynsamlegt“ að taka tilboðum á hærra gengi í útboðinu. Í álitinu eru gerðar ýmsar athugasemdir við efnistök skýrslu Ríkisendurskoðunar og nefnt að útreikningar í krónum talið sem þar birtust um hvað hefði fengist fyrir hærri tilboð hafi „verið til þess fallin að valda misskilningi.“ Meirihlutinn telur að aðkoma Íslandsbanka að framkvæmd útboðsins hafi „ýtt undir vantraust gagnvart sölunni.“

Niðurstaða meirihlutans, sem telur fimm þingmenn í Sjálfstæðisflokki, Framsókn og Vinstri Grænum, er að salan á 22,5 prósenta hlut í Íslandsbanka í marsmánuði á liðnu ári hafi heilt yfir tekist vel, þá „sérstaklega í veigamestu atriðunum.“ Ríkið fékk tæplega 53 milljarða fyrir hlutinn sem var seldur á genginu 117 krónur á hlut, en það var ríflega 4 prósenta frávik miðað við síðasta dagslokagengi.

Í álitinu er hins vegar nefnt að það liggi fyrir eftir ítarlega yfirferð nefndarinnar að einstaka hlutar framkvæmdarinnar hefði þurft að gera með vandaðri hætti.

„Að mati meirihlutans höfðu þau atriði sem hefðu getað verið vandaðri þó ekki áhrif á niðurstöðu málsins sem var heilt yfir góð en brýnt er að læra af þeim svo vanda megi framkvæmdina til framtíðar. Ekkert við vinnslu málsins gaf til kynna að lög eða reglur hafi verið brotnar við framkvæmd sölunnar af hálfu ráðherra eða Bankasýslu ríkisins,“ segir í álitinu.

Meirihlutinn telur að umfjöllun skýrslunnar þar sem reiknað hafði verið út í krónum talið hvað hefði fengist fyrir hærri tilboð hafi verið til þess fallin að valda misskilningi.

Stjórnskipunar- og eftirlitnefnd klofnaði í afstöðu sinni til skýrslu Ríkisendurskoðunar en í minnihlutaáliti stjórnarandstöðunnar er komist að þeirri niðurstöðu að rannsókn málsins sé ekki lokið og að þörf sé á því að skipa rannsóknarnefnd.

Hildur Sverrisdóttir, annar af tveimur fulltrúum Sjálfstæðisflokksins í nefndinni, segir í samtali við Innherja hins vegar augljóst að þau „gífuryrði og upphrópanir sem voru höfð uppi í þingsal í upphafi málsins“ hafi ekki staðist ekki þá ítarlega skoðun sem það hefur fengið í nefndinni en hún fékk til sín fjölda sérfræðinga til að fara yfir málið með sér.

„Málið verður tekið til umræðu í þingsal að öllum líkindum á morgun. Að því loknu tel ég enga ástæðu til annars en að það verði settur punktur við þessa vel upplýstu rannsókn á málinu. Í framhaldinu er mikilvægt að við lærum það sem hægt er af þessu til að gera enn betur í þeirri mikilvægu vegferð að losa enn frekar um hluti ríkisins í fjármálakerfinu,“ segir hún.

Fram kemur í áliti meirihlutans að skýrsla Ríkisendurskoðunar, sem kom út um miðjan nóvember í fyrra, hafi verið „metnaðarfull og yfirgripsmikil“ og að hún hafi sömuleiðis að „geyma gagnlegar ábendingar um það sem betur hefði mátt fara“ við söluna.

Meirihlutinn tekur hins vegar fram að ýmis efnistök við vinnslu skýrslunnar hefðu þó „mátt vera skýrari og afgerandi þannig að úrvinnsla nefndarinnar og umfjöllun gæti verið markvissari og síður háð túlkunum. Taka hefði mátt af öll tvímæli um að Excel-skjal sem Bankasýsla ríkisins sendi Ríkisendurskoðun og hafði að geyma villur hafi ekki verið það skjal sem lá til grundvallar þegar leiðbeinandi lokaverð var ákveðið.“

Þá er einnig gagnrýnt í álitinu að gera hefði mátt helstu útgangspunktum skýrslunnar betri skil, svo sem um fjárhagslega niðurstöðu sölunnar. Þá hefði verið gagnlegt, að mati meirihluta nefndarinnar, að komið hefði skýrt fram að þau atriði sem ekki voru talin aðfinnsluverð eða kölluðu ekki á nánari skoðun voru ekki til umfjöllunar í skýrslunni.

„Meirihlutinn telur að það væri gagn af því að það lægi skýrar fyrir í framtíðar úttektum Ríkisendurskoðunar hvort um sé að ræða reifun mála á atriðum sem þó eru ekki talin aðfinnsluverð, eða hvort eingöngu sé um að ræða samantekt atriða sem að mati embættisins hefði mátt betur fara. Með því móti yrði umfjöllun um skýrslur Ríkisendurskoðunar markvissari og síður misskilningi háð,“ segir álitinu, sem telur um níu blaðsíður.

Það hefði verið æskilegt að við kynningu á framkvæmdinni hefði verið gerð skýr grein fyrir því að sú staða gæti komið upp að með þessu fyrirkomulagi gætu skilgreindir fagfjárfestar fjárfest fyrir tiltölulega lága fjárhæð.

Í skýrslu Ríkisendurskoðunar var meðal annars fundið að því að upplýsingagjöf í þeim gögnum sem Bankasýslan og fjármálaráðherra lögðu fyrir Alþingi hafi ekki dregið upp nægjanlega skýra mynd tilhögun söluferlisins.

Meirihlutinn tekur sumpart undir þessa gagnrýni í áliti sínu og segir að upplýsa hefði mátt betur um hvernig hinn væntanlega kaupendahópur gæti litið út.

„Eins er gagnrýnivert að ekki virðist hafa verið gert ráð fyrir þeim möguleika að fjárfestar myndu fjárfesta í jafn litlum hlut og raun bar vitni. Það hefði verið æskilegt að við kynningu á framkvæmdinni hefði verið gerð skýr grein fyrir því að sú staða gæti komið upp að með þessu fyrirkomulagi gætu skilgreindir fagfjárfestar fjárfest fyrir tiltölulega lága fjárhæð. Það hefði skapað möguleikann á því að taka sérstaka afstöðu til þess og eftir atvikum koma með leiðbeiningar þar um. Þess ber þó einnig að geta að við vinnslu málsins hafi að mati meirihlutans ekkert komið fram sem bendi til að jafnræði á milli fjárfesta hafi verið ekki verið virt,“ að því er segir í álitinu.

Í umfjöllun meirihlutans er einnig fjallað um tilboðsfyrirkomulagið sem var beitt við söluna á hlut ríkisins í Íslandsbanka, en slíkri aðgerð hafði ekki verið beitt áður við sölu á hlutum ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

„Þessi aðferð hefur þó verið viðhöfð margoft við sölu ríkiseigna í löndunum í kringum okkur til að mynda nýlega þegar írska ríkið losaði um hluti í Allied Irish Bank. Tímaþröng einkennir sölu með tilboðsfyrirkomulagi en söluferlið er um margt óformlegt og háð faglegu huglægu mati margra aðila sem að sölunni koma, meðal annars aðila sem starfa á markaði. Að mati meirihlutans hefði þurft að gæta betur að upplýsingagjöf um söluaðferðina gagnvart almenningi, sérstaklega þar sem henni hafði aldrei verið beitt áður hér á landi við sölu á eignarhlut ríkisins í fjármálafyrirtæki, sem skapaði jarðveg fyrir vantrausti á aðferðinni og misskilningi um framkvæmd hennar.“

Þá segir meirihlutinn í álitinu að þegar kemur að upplýsingagjöf til fjárlaganefndar og efnahags- og viðskiptanefndar í aðdraganda sölunnar að ekki verði annað séð af gögnum málsins en að hún hafi verið „nægjanleg“ og ráðherra sinnt lögbundinni upplýsingaskyldu sinni. Í álitinu er hins vegar vakin athygli á því að Ríkisendurskoðun hafi ekki átt samtal við nefndarmenn þessara sömu nefnda við gerð skýrslunnar „sem að mati meirihlutans hefði getað varpað frekara ljósi á kynningar fyrir nefndunum.“

Samkvæmt áliti meirihlutans er ljóst að fjárhagsleg niðurstaða sölunnar hafi verið hagfelld. Það eigi við hvort sem um er að ræða verðið, frávik frá dagslokagengi og aðstæður á eftirmarkaði þar sem ríkið er enn stór eigandi bankans, með 42,5 prósenta hlut, og hefur mikla hagsmuni af hagfelldri verðþróun. Hlutabréfaverð Íslandsbanka stendur núna í rúmlega 125 krónum á hlut eftir að hafa hækkað um liðlega sjö prósent frá byrjun febrúarmánaðar þegar tilkynnt var um væntanlegar samrunaviðræður Kviku og Íslandsbanka.

Vangaveltur um að hægt hefði verið að fá mun hærra verð út frá hærri tilboðum sem bárust hafa ekki staðist skoðun um hvaða ákvarðanir ábyrgt var að taka.

„Að mati meirihlutans hefur ekkert komið fram sem bendir til annars en að hæsta mögulega verð hafi fengist miðað við þær forsendur að mikilvægt var að halda inni erlendum fjárfestum en fyrir nefndinni kom fram að það var mat sérfræðinga að raunveruleg hætta var á að þeir myndu hverfa frá sölunni ef reynt hefði verið að fá hærra verð. Vangaveltur um að hægt hefði verið að fá mun hærra verð út frá hærri tilboðum sem bárust hafa ekki staðist skoðun um hvaða ákvarðanir ábyrgt var að taka. Þá verður ekki annað séð en að „afsláttur“ eða frávik frá síðasta dagslokagengi hafi verið eðlilegt og raunar með því lægsta sem þekkist í sambærilegum sölum í Evrópu undanfarin misseri,“ segir í álitinu.

Þá kemur sömuleiðis fram að það sé mat meirihlutans að salan hafi verið í samræmi við markmiðin sem voru lögð fram í greinargerð fjármálaráðherra.

„Meirihlutinn telur að markmiðin hafi ekki verið í ósamræmi hvert við annað og það hefði verið ógerningur að horfa eingöngu til markmiðs um hæsta verðs eða einhvers eins markmiðs án þess að taka tillit til annarra yfirlýstra markmiða í þágu heildarmyndarinnar. Meirihlutinn tekur þó undir að heppilegra hefði verið að gefa gleggri mynd af vægi einstakra markmiða fyrirfram. Fyrir nefndinni kom fram að það hefði ekki verið ómögulegt að gefa ávinning af grófu mati fyrirfram þó ógjörningur væri að festa það nákvæmlega niður.“

Í hópi þeirra ráðgjafa sem Bankasýslan réð sem ráðgjafa við söluna í marsmánuði í fyrra var Íslandsbanki, sem var umsjónaraðili útboðsins hér heima.

Samkvæmt meirihlutaálitinu komu fyrir nefndina mismunandi sjónarmið um hversu heppilegt það hafi verið að fá Íslandsbanka sem samstarfsaðila að verkefinu. „Meirihlutinn tekur undir sjónarmið þess efnis að aðkoma Íslandsbanka að framkvæmdinni hafi ýtt undir vantraust gagnvart sölunni,“ segir í álitinu.

Á meðal þeirra sem keyptu í útboðinu í fyrra voru starfsmenn hjá Íslandsbanka. Í áliti meirihlutans er rifjað upp að Bankasýslan hefur sagt að hún hafi ekki kannað innri reglur umsjónaraðila söluferlisins, þar á meðal Íslandsbanka, um verðbréfaviðskipti starfsfólks og vísaði til þess að fjármálafyrirtækjum bæri samkvæmt lögum að setja sér sérstakar innri reglur um ráðstafanir gegn hagsmunaárekstrum.

„Stofnunin hafi metið það sem svo að lög og reglur sem um fjármálamarkaðinn gilda væru með þeim hætti að innri reglur umsjónaraðila, söluráðgjafa og söluaðila kæmu í veg fyrir hagsmunaárekstra í sölunni. Það veldur vonbrigðum að það hafi ekki gengið eftir samkvæmt þeim upplýsingum sem liggja fyrir úr úttekt Fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands,“ að mati meirihluta nefndarinnar.

Í skýrslu Ríkisendurskoðunar var fundið að smæð Bankasýslu ríkisins, sem taldi þá þrjá starfsmenn, og hún hafi því haft takmarkað svigrúm til almennrar upplýsingagjafar og starfsfólk hennar hafi ekki búið yfir reynslu af sölu með tilboðsfyrirkomulagi og því verið afar háð utanaðkomandi ráðgjöf og þekkingu.

Meirihluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar tekur ekki undir þetta sjónarmið í áliti sínu og bendir á að ljóst sé að stofnun sem eingöngu sinnir eignarhaldi fjármálafyrirtækja í eigu ríkisins verði ávallt smá eining.

„Meirihlutinn gerir því ekki athugasemd við að stofnunin hafi leitað sér utanaðkomandi ráðgjafar og telur þvert á móti rétt að slíkar stofnanir leiti til sérfræðinga í slíkum tilvikum enda væri óhagkvæmt að ætla að manna smáar stofnanir með þekkingu sem enginn veit með vissu í hverju á að felast til framtíðar. Meirihlutinn telur heldur ekkert benda til að almenn þekking hafi ekki verið til staðar innan stofnunarinnar til að halda utan um framkvæmd sölunnar. Meirihlutinn telur því ekki neikvætt að Bankasýslan hafi þurft að reiða sig á utanaðkomandi aðstoð við söluna og ekki verður annað séð en að Bankasýsla ríkisins hafi notið faglegrar sérfræðiráðgjafar við söluna.“

Meirihlutinn gerir því ekki athugasemd við að stofnunin hafi leitað sér utanaðkomandi ráðgjafar og telur þvert á móti rétt að slíkar stofnanir leiti til sérfræðinga í slíkum tilvikum enda væri óhagkvæmt að ætla að manna smáar stofnanir með þekkingu sem enginn veit með vissu í hverju á að felast til framtíðar.

Þá er hins vegar vakin athygli á því í álitinu að núverandi fyrirkomulag um utanumhald og sölu ríkiseigna í fjármálafyrirtækjum feli í sér óþarflega flókna ábyrgðarskiptingu sem eykur hættu á óskýrum samskiptum og hlutverkum.

„Það er álit meirihlutans að lögin sem fyrirkomulagið byggir á séu óskýr um nákvæma verkaskiptingu á milli aðila að þessu leyti en finnst rétt að það komi fram að ekkert bendi til annars en að bæði ráðherra og Bankasýsla ríkisins hafi sinnt sínum hlutverkum í samræmi við anda og tilgang laganna við söluna sem um ræðir.“

Það sé því um margt tímabært að taka núverandi fyrirkomulag til endurskoðunar, að sögn meirihlutans, en ríkisstjórnin hefur boðað frumvarp þar sem meðal annars stendur til að leggja niður Bankasýsluna.


Tengdar fréttir

Segir útboðið á Íslandsbanka eitt það farsælasta í sögunni

Stjórnarformaður Bankasýslunnar segir að umdeilt útboð á hlut ríkisins í Íslandsbanka, þar sem aðeins fagfjárfestar fengu að taka þátt, hafi raunar jafnvel verið betur heppnað en fyrra útboðið, sem var alveg opið. Hann segir ekki laust við að stjórnmálamönnum hafi þótt ágætt að benda á einhvern annan en sjálfan sig eftir að salan komst í hámæli.

Vill meira gagn­sæi

Stjórnarandstaðan kallar eftir meira gagnsæi þegar sala á ríkiseignum er til rannsóknar. Fjármálaeftirlitið telur lög hafa verið brotin við söluna á Íslandsbanka samkvæmt tilkynningu sem bankinn sendi frá sér í gær. 

Íslandsbankasalan: Meirihlutinn felldi tillögu um lögfræðilegt álit

Tryggvi Gunnarsson, fyrrverandi umboðsmaður Alþingis, telur að kanna hefði þurft betur ýmislegt varðandi það hvernig staðið var að sölunni á Íslandsbanka. Meirihluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar felldi tillögu minnihlutans um að fengið yrði lögfræðilegt álit.

Ís­lands­banki kunni að hafa brotið lög við út­boðið

Í frummati fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands vegna athugunar á framkvæmd Íslandsbanka hf. á útboði Bankasýslu ríkisins á 22,5 prósent eignarhluta ríkisins í Íslandsbanka segir að FME telji að bankinn kunni að hafa brotið gegn lögum og reglum sem um bankann gilda.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×