Innherji

Að­stoð­ar­rit­stjór­i Eur­om­on­ey gagn­rýn­ir skýrsl­u um sölu á Ís­lands­bank­a

Helgi Vífill Júlíusson skrifar
Guðmundur Björgvin Helgason er ríkisendurskoðandi og ber ábyrgð á skýrslu embættisins um sölu ríkisins á hlut í Íslandbanka.
Guðmundur Björgvin Helgason er ríkisendurskoðandi og ber ábyrgð á skýrslu embættisins um sölu ríkisins á hlut í Íslandbanka. Vísir/Vilhelm

Aðstoðarritstjóri Euromoney gagnrýnir nýlega skýrslu Ríkisendurskoðunar um sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka. Hann segir að verðið í útboðinu hafi verið sanngjarnt einkum í ljósi krefjandi markaðsaðstæðna. Það hefði haft dýrkeyptar afleiðingar fyrir innlenda hlutabréfamarkaðinn að selja á hærra gengi miðað við eftirspurnina. Að sama skapi hafi umræða um tiltekið Excelskjal verið á villigötum.

Mark Baker hefur skrifað um hlutabréfaviðskipti með hléum í 25 ár og er aðstoðarritstjóri Euromoney.

Hann segir í skoðanapistli að sala ríkisins á 22,5 prósenta hlut í tilboðsferli hafi verið óvenjuleg fyrir þær sakir að verið var að selja mun meira magn bréfa en alla jafna tíðkast. Salan hafi verið ígildi um 280 daga veltu með hlutabréfin eða það sem jafngildi tíu daga veltu í allri íslensku kauphöllinni.

Baker vekur athygli á því að starfsfólk þrautreyndar fjármálafyrirtækja á borð við Citi, JPMorgan og STJ Advisosrs hafi rökrætt hvort selja ætti bréfin á genginu 117 eða 118 – enda hafi eftirspurnin fallið hratt á hærra gengi. 

Það er ekki hægt að gera sumum endurskoðendum til geðs.

„En það er ekki hægt að gera sumum endurskoðendum til geðs,“ skrifar hann. Ríkisendurskoðun hafi viljað verð sem væri nær síðasta dagslokagengi þegar viðskiptin áttu sér stað eða 122. Í skýrslunni hafi verið fullyrt að næg eftirspurn hafi verið á genginu 120,5 og líka á genginu 122.

Mark Baker hefur skrifað um hlutabréfaviðskipti með hléum í 25 ár og er aðstoðarritstjóri Euromoney.Euromoney

Aðstoðarritstjórinn bendir á að bankamenn viti fullvel að öll eftirspurn sé ekki eins. Niðurstaða ráðgjafanna hafi verið að ef selt yrðu á hærri gengi myndi það kalla fram „Harmagedón“ fyrir innlenda hlutabréfamarkað, sérstaklega ef það myndi leiða til þess að fjárfestar yrðu að selja önnur hlutabréf til að fjármagna kaupin í Íslandsbanka á hærra gengi. „Enginn með réttu ráði myndi gera það,“ segir hann.

Rætt er um mistök í Excelskjali sem nýtt var til að safna tilboðum í skoðanapistlinum. Ríkisendurskoðun hefur sagt að eftirspurnin hafi verið vantalin í ljósi þess að mörg hinna innsendu tilboða hafi verið færð inn á röngu formi, „ýmist með erlendri kommusetningu eða fjárhæð skilgreindri sem texta“. Samlagning fjárhæðanna var svo raunar önnur meinsemd, þar sem tilboðin voru ekki lögð inn sem fjárhæðir heldur fjöldi hluta á tilteknu verði. Því hafi þurft að leggja saman heildarfjölda hluta sem boðið var í á hverju verði fyrir sig, og margfalda loks með því verði. Þau tilboð sem ekki tilgreindu hámarksverð hafi einnig verið ranglega skráð á genginu 117.

„Í ljós kom að Excel-skjalið var vistað klukkan 19:37 22. mars, í raun í byrjun fundarins með ráðgjöfum bankanna þegar ákveða átti leiðbeinandi verð og stærð. Það þýðir að skjalið var, tja, ekki lokaútgáfan,“ segir Baker og nefnir það megi ímynda sér að upplýsingum hafi verið límt (e. paste) í skjalið og svo yrði unnið nánar í skjalinu næsta klukkutímann eða svo. Það standi meira að segja á grafi sem teiknaði upp eftirspurnina miðað við mismunandi gengi að öll tilboðin væru ekki tekin með í reikninginn því það ætti eftir að gaumgæfa tölur og hreinsa gögnin.

Það þýðir að skjalið var, tja, ekki lokaútgáfan.

Baker segir að Ríkisendurskoðun hafi fengið sent eintak af lokaskjalinu sem vistað var klukkan 20:36 hinn 31. október. „Skýrsla Ríkisendurskoðunar staðfestir það,“ segir hann. 

„Til að draga saman, rangt skjal var sent því næst hið rétta sem allar ákvarðanir voru byggðar. Þess vegna höfðu mistök í fyrra skjalinu engin áhrif á leiðbeinandi verð,“ segir Baker.


Tengdar fréttir

Banka­sýslan hafi haft fulla yfir­sýn á heildareftirspurn í ­út­boðinu

Bankasýsla ríkisins hafnar því alfarið að hafa ekki haft fullnægjandi upplýsingar um heildareftirspurn í Íslandsbankaútboðinu í mars síðastliðnum, líkt og haldið er fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar um söluna á 22,5 prósent hlut í Íslandsbanka í mars síðastliðnum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×