Körfubolti

„Ég er að horfa í einn kaldann á Hótel Selfoss hjá Bjögga snögga í kvöld“

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Viðar Örn Hafsteinsson, þjálfari Hattar, var eðlilega kátur eftir sigur sinna manna í kvöld.
Viðar Örn Hafsteinsson, þjálfari Hattar, var eðlilega kátur eftir sigur sinna manna í kvöld. VÍSIR/BÁRA

„Leikplanið hjá okkur varnarlega gekk upp, náðum að ýta þeim úr því sem þeir eru góðir í. Þetta var mjög vel framkvæmt hjá okkur. Trúin og hvernig við réðumst á þá í framlengingunni sýnir styrk hjá liði sem er búið að tapa fleiri lengjum en það hefur unnið. Það var öflugt að klára þetta,“ sagði glaður Viðar Örn Hafsteinsson, þjálfari Hattar, eftir sigur gegn Stjörnunni í kvöld.

Í 4. leikhluta skoraði Stjarnan ekki í sex og hálfa mínútu. Hvað var Höttur að gera vel á þeim kafla? 

„Við vorum að skipta vel, láta þá fara inn í teig og út úr því sem þeir eru vanir að gera. Stjarnan er með sjö stoðsendingar í öllum leiknum. Við náðum að láta þá fara í einn á einn og náðum að brjóta flæðið þeirra þannig.“ 

„Þegar Robert Turner var þá hefðum við ekki viljað fara í einn á einn leik. En við gerðum það ofboðslega vel í dag.“ 

„Leikmenn á bekknum komu með mikið og gott framlag. Ég held að bekkurinn sé búinn að skora meira en byrjunarliðið í síðustu leikjum. Þetta er ekki fótbolti, það má skipta inn og út. Það skiptir engu máli hverjir byrja inná, við viljum vinna sem lið og erum að tikka saman.“ 

Í framlengingunni byrjaði Höttur á 10-0 kafla. Í villtustu draumum, gastu séð þetta fyrir? 

„Ég veit það ekki, er ekki mikið fyrir að muna eftir draumunum mínum. Við vinnum eftir því em við ætlum að gera. Þetta snýst um að safna eins mörgum sigrum og við getum. Hérna kom einn í bakpokann og svo áfram með þetta.“ 

Höttur er nú tveimur sigrum fyrir ofan fallsæti. Er Viðar að horfa upp eða niður töfluna? 

„Ég er að horfa í einn kaldann á Hótel Selfoss hjá Bjögga snögga* í kvöld. Svo kemur landsleikjahlé, svo horfi ég á næsta leik. Við þurfum að bjarga okkur frá falli, það er ekkert búið. Þetta er bara næsti leikur og safna sigrum. Við ætlum að brjóta blað í sögu félagsins,“ sagði Viðar að lokum. 

*Bjöggi snöggi er Björgvin Jóhannesson, fyrrum leikmaður Hamars.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×