Skoðun

Það er hægt að semja til langs tíma á ís­lenskum vinnu­markaði

Jón Ingi Hákonarson skrifar

Geta aðilar á vinnumarkaði gert langtíma kjarasamning? Svarið er já, hluti atvinnulífsins býr við þann stöðugleika að geta horft áratug fram í tímann. Aftur á móti býr stór hluti atvinnulífsins við þær aðstæður að geta ekki einu sinni séð ár fram í tímann.

Við erum að upplifa merkilegt tímabil því á sama augnabliki eru uppi þrjár ólíkar stöður í kjarabaráttunni. Stór hluti stéttarfélaga hefur samið til mjög skamms tíma vegna óvissunnar í efnahagsmálum, Efling hefur boðað til verkfalla og samningsviðræður við atvinnulífið eru við frostmark. Sjómenn hafa aftur á móti samið til tíu ára vegna stöðugleika og þess fyrirsjáanleika sem þar ríkir. Erum við ekki öll á sama báti, er þetta ekki eitt efnahagskerfi sem við búum við, eða hvað?

Einn þessara hópa býr við þá gæfu að fá að gera upp í evru, hinir í íslenskum krónum. Kostir þess að vera utan krónuhagkerfisins hafa líklega aldrei verið jafn augljósir. Krónan ýkir óstöðugleika efnahagslífsins á meðan evran ýtir undir stöðugleika.

Krónan er dýr gjaldmiðill og kostar megin þorra launafólks hvítuna úr augunum. Mesta kjarabót íslensks launafólks er gjaldmiðill sem heldur verðgildi sínu. Það að íslenskt launafólk borgi húsnæði sitt allt að þrisvar sinnum á meðan nágrannar okkar í Skandinavíu borgi það einu og hálfu sinni er ekki boðlegt. Það að íslenskt launafólk hafi ekki efni á öðru en 40 ára löngu verðtryggðu húsnæðisláni er fátæktargildra efri áranna.

Nú er svo komið að fasteignaverð og vextir á fasteignalánum eru komin út fyrir þolmörk og verkfæri efnahagsstjórnunar eru orðin bitlaus. Hinir skuldlausu þola krónuhagkerfið, við sem burðumst með fasteignalán gerum það ekki. Við verðum bara að hlaupa hraðar.

Mér sýnist að flest launafólk sé búið að hlaupa of hratt of lengi. Er ekki bara komið nóg? Er ekki bara best að taka upp nothæfan gjaldmiðil?

Höfundur er bæjarfulltrúi Viðreisnar í Hafnarfirði



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Skoðun

Bestu árin

Álfhildur Leifsdóttir,Hólmfríður Jennýjar Árnadóttir,Sigríður Gísladóttir skrifar

Sjá meira


×