Golf

Guðmundur Ágúst fór holu í höggi í Singapúr

Smári Jökull Jónsson skrifar
Guðmundur Ágúst náði sínum besta árangri á mótaröðinni til þessa.
Guðmundur Ágúst náði sínum besta árangri á mótaröðinni til þessa. Vísir/Getty

Guðmundur Ágúst Kristjánsson gerði sér lítið fyrir og fór holu í höggi á Singapore Classic mótinu í golfi sem er hluti af evrópsku mótaröðinni.

Lokahringur mótsins fór fram í nótt og náði Guðmundur Ágúst draumahögginu á elleftu holu vallarins en brautin er rúmlega 180 metra löng.

Draumahöggið á elleftu braut kórónaði frábæran lokahring Guðmundar sem lék hringinn á sex höggum undir pari vallarins en hann var á pari eftir fyrstu þrjá hringina eftir að hafa leikið þriðja hringinn á fjórum höggum yfir pari.

Guðmundur endaði ásamt fimm öðrum kylfingum í 49.sæti mótsins sem er hans besti árangri á mótaröðinni til þessa en hún er sterkasta mótaröðin í Evrópu.

Fyrir árangur sinn á mótinu fær Guðmundur tæplega 1,2 milljónir í verðlaunafé. Guðmundur heldur næst til Taílands þar sem næsta mót á mótaröðinni hefst á miðvikudag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×