Körfubolti

Keypti notaða treyju Kobe Bryant fyrir 817 milljónir

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kobe Bryant í treyju númer 24 hjá Los Angeles Lakers. Hann spilaði í henni seinni hluta ferilsins síns en byrjaði í áttunni.
Kobe Bryant í treyju númer 24 hjá Los Angeles Lakers. Hann spilaði í henni seinni hluta ferilsins síns en byrjaði í áttunni. Getty/Christian Petersen

Sumar íþróttatreyjur eru aðeins verðmætari en aðrar. Ein sú verðmætasta seldist á uppboði í Bandaríkjunum í gær.

Treyjum sem um ræði er keppnistreyja Kobe Bryant sem hann lék í á 2007-08 tímabilinu og áritaði. Þetta tímabil var Kobe valinn mikilvægasti leikmaður NBA-deildarinnar.

Kobe var með 28,3 stig, 6,3 fráköst og 5,4 stoðsendingar í leik þetta tímabil og endaði á því að fara með Los Angeles Lakers alla leið í lokaúrslitin í fyrsta sinn eftir að Shaquille O'Neal fór frá liðinu.

Kobe var líka í þessari treyju þegar hann fékk verðlaunin afhent 6. maí 2008 en það var í leik tvö í undanúrslitum Vesturdeildarinnar.

Uppboðsaðilar ætluðu að selja treyjuna fyrir á bilinu fimm til sjö milljónir dollara. Hún seldist á endanum á 5,8 milljónir Bandaríkjadala eða um 817 milljónir íslenskra króna.

Þetta er næstdýrasta treyja sögunnar en sú dýrasta var keppnistreyja Michael Jordan frá lokaúrslitunum 1998. Sú treyja kostaði 10,1 milljón dollara í september 2022 eða 1,4 milljarða íslenskra króna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×