Handbolti

Mark Óðins með einkennisskotinu valið það flottasta í umferðinni

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Óðinn Þór Ríkharðsson fór á kostum í Montpellier í gær.
Óðinn Þór Ríkharðsson fór á kostum í Montpellier í gær. vísir/vilhelm

Óðinn Þór Ríkharðsson sýndi snilli sína þegar Kadetten Schaffhausen mætti Montpellier í Evrópudeildinni í handbolta í gær.

Óðinn skoraði átta mörk úr ellefu skotum og var markahæstur í liði svissnesku meistaranna. Eitt mark var þó öðrum flottara.

Óðinn skoraði fyrstu þrjú mörk Kadetten í leiknum en það þriðja var það besta. Hann var þá einu sinni sem oftar kominn fremstur í hraðaupphlaup og kastaði boltanum aftur fyrir sig og í netið, framhjá Charles Bolzinger, markverði Montpellier. Þetta er eins konar einkennisskot Óðins en hann beitir því oft með góðum árangri.

Þetta mark Óðins var valið það flottasta í 7. umferð Evrópudeildarinnar á Twitter-síðu evrópska handknattleikssambandsins.

Stórleikur Óðins dugði Kadetten þó ekki til sigurs því Montpellier vann leikinn, 40-36. Franska liðið er með fullt hús stiga á toppi A-riðils Evrópudeildarinnar en Óðinn og félagar eru í 3. sæti með átta stig. Aðalsteinn Eyjólfsson er þjálfari Kadetten.

Óðinn hefur skorað 36 mörk í Evrópudeildinni í vetur og er markahæsti leikmaður Kadetten í keppninni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×