Umfjöllun: Flensburg - Valur 33-30 | Hetjuleg barátta í Flens-Arena

Andri Már Eggertsson skrifar
stiven diego
vísir/Diego

Flensburg vann þriggja marka sigur á Val 33-30. Þýsku risarnir þurftu að hafa mikið fyrir sigrinum þar sem Valsmenn spiluðu afar vel og geta gengið sáttir frá borði þrátt fyrir þriggja marka tap.

Liðin skiptust á mörkum til að byrja með. Það var enginn skrekkur í Valsmönnum verandi að spila í Flens-Arena. Eftir fyrstu tíu mínúturnar var staðan 5-5. Teitur Örn Einarsson byrjaði í hægri skyttunni hjá Flensburg en eftir að hafa skorað eitt mark úr tveimur skotum og tapað tveimur boltum kom Franz Semper inn á.

Fyrri hálfleikur einkenndist af áhlaupum beggja liða. Flensburg átti gott áhlaup um miðjan fyrri hálfleik þar sem heimamenn fengu markvörslu og refsuðu Val fyrir tapaða bolta. Flensburg skoraði fjögur mörk í röð og komst sex mörkum yfir 14-8.

Á þessum kafla tók Snorri Steinn Guðjónsson, þjálfari Vals, þýðingarmikið leikhlé þar sem hann barði trú í menn og sagði þeim að slaka á. Valsmenn svöruðu kalli þjálfarans og skoruðu fjögur mörk í röð.

 

Tjörvi Týr Gíslason var stálheppinn að hafa ekki fengið rautt spjald í fyrri hálfleik þegar hann fór beint í andlitið á Franz Semper. Heimamenn voru tveimur mörkum yfir í hálfleik 16-14 en Valsmenn gátu svo sannarlega borið höfuðið hátt í hálfleik því úti á velli voru yfirburðir Flensburg ekki áberandi.

Síðari hálfleikur var galopinn nánast alveg til enda. Valur skrúfaði upp orkustigið í upphafi síðari hálfleiks og komust yfir 19-20 eftir að hafa skorað þrjú mörk í röð. 

Aaron Mensing reyndist Val erfiður en hann skoraði þó nokkur auðveld mörk fyrir utan punktalínu þar sem hann þrumaði á markið. Mensing var markahæstur hjá Flensburg með átta mörk úr tíu skotum. 

Markaskorun Vals dreifðist á þrettán leikmenn. Benedikt Gunnar Óskarsson var markahæstur með átta mörk. Hefði Valur ætlað alla leið og ná sigri hefði Arnór Snær, Magnús Óli og Björgvin Páll átt að skila aðeins betra framlagi.

Arnór Snær og Magnús Óli skoruðu samanlagt fjögur mörk úr ellefu skotum. Björgvin Páll Gústavsson varði tíu bolta og nokkra á mikilvægum augnablikum en í hinu markinu fór Kevin Møller, markmaður Flensburg, á kostum og dró tennurnar úr leikmönnum Vals. Hann varði 17 skot og endaði með 37 prósent markvörslu.

 

Flensburg vann að lokum þriggja marka sigur 33-30. Þessi úrslit þýða að Valur er nánast að fara í úrslitaleik gegn Benidorm næsta þriðjudag klukkan 19:45 í Origo-höllinni og undirritaður hvetur alla sem hafa tök á að mæta á völlinn. 

Bein lýsing

Leikirnir


    Fleiri fréttir

    Sjá meira