Eftir ansi stutt ferli fór ný auglýsingaherferð tæknifyrirtækisins Advania fór í loftið á fimmtudaginn. Vinna við herferðina hófst á mánudaginn en með gervigreind var hægt að framleiða allt efni á mun fljótlegri og ódýrari máta.

Auður Inga Einarsdóttir, forstöðumaður markaðsmála Advania, segir í samtali við fréttastofu að hugmyndin hafi kraumað í kolli starfsmanna frekar lengi. Á föstudaginn í þar síðustu viku var síðan ákveðið að keyra á þetta.
„Umræðan hefur aukist um alls konar gervigreind í myndvinnslu, textagerð og fleira, þannig okkur datt í hug að skoða hversu langt við komumst með gervigreindina í að framleiða markaðsherferð. Þetta tók tæpa viku. Hugmyndin kviknaði í alvöru á föstudaginn í þar síðustu viku og svo byrjuðum við á mánudaginn. Við keyrðum þetta allt út síðan á fimmtudegi,“ segir Auður.
Fjallað hefur verið ítarlega um möguleika gervigreindar hér á Vísi, meðal annars þegar kemur að textaskrifum og myndvinnslu. Möguleikinn á að gera heimanám með gervigreind hefur verið skoðaður og samdi gervigreind kynningartexta fyrir þáttinn Ísland í dag á dögunum.
Nokkur forrit notuð
Til þess að framleiða herferðina notaðist Advania við nokkrar gerðir gervigreindar. ChatGPT til að smíða texta, MidJourny og Dall-e til að gera myndir og síðan Smartly til að koma öllu saman.
„Við spurðum ChatGPT, hvað er Advania, hvað gerir Advania, hvernig snertir Advania líf fólks. Þetta var bara nokkuð „spot on“. Þannig við báðum hann um að skrifa söluræðu. Við fengum þá texta sem lýsti hvað við værum að gera til þess að hjálpa fólki með upplýsingatækni. Svo reyndum við að þýða þetta yfir á hið ylhýra en stundum kom þetta smá kómískt út. En það er hægt að þjálfa þetta betur,“ segir Auður.
Útkoman í ChatGPT var eftirfarandi:
- Við erum með þér í ráðningaferlinu
- Við erum með þér í greiningu gagna
- Við erum með þér í skýinu
- Við erum með þér í öryggismálum
- Við erum með þér í fjarvinnunni
- Við erum með þér í samþættingu kerfa
- Við erum með þér í vefsíðu gerð
- Við erum með þér í rekstri tölvukerfa
Íslenskur þjarkur
Þessar útkomur voru síðan notaðar í auglýsingar og paraðar saman við myndir sem gervigreind hafði einnig framleitt. En myndir og texti var ekki nóg heldur þarf rödd til að lesa textann.
„Við nutum liðsemi Gunnars hjá Microsoft. Það er þjarkur sem talar íslensku. það er smá óhugnanlegt hvað það kom vel út. Við þurftum smá að kenna honum, til dæmis hvernig eigi að bera fram Advania. Svo notuðum við gervigreind í að deila efninu á miðla,“ segir Auður.
Þrátt fyrir mikla getu gervigreindarinnar í þessu verkefni getur hún alls ekki gert allt og þurfti aðstoð við ýmsa hluti. Þá voru sumar af myndunum sem framleiddar voru ekki góðar en að sögn Auðar verða þær einnig birtar seinna meir.