Umfjöllun og viðtöl: Stjarnan - ÍR 94-76 | Stjarnan seig fram úr undir lokin

Andri Már Eggertsson skrifar
ír
VÍSIR/BÁRA

Stjarnan vann mikilvægan sigur á ÍR í Subway-deild karla í kvöld. Lokatölur 94-76 og Stjarnan skilur ÍR-inga nú sex stigum fyrir aftan sig í töflunni.

Leikurinn í kvöld var í járnum lengst af. Stjarnan leiddi 49-48 í hálfleik eftir að liðin höfðu skipst á forystunni í fyrri hálfleik. Í seinni hálfleiknum voru hins vegar heimamenn sterkari. Þeir náðu áhlaupi í þriðja leikhluta en leiddu fyrir þann fjórða. 

Þar höfðu Stjörnumenn frumkvæðið allan tímann og unnu að lokum átján stiga sigur, 94-76.

Niels Gutenius skoraði 26 stig fyrir Stjörnuna í kvöld og Adama Darboe 19. Hjá ÍR skoraði Hákon Örn Hjálmarsson mest eða 22 stig.

Stjarnan tók frumkvæðið og byrjaði á að gera sjö stig í röð. Það tók ÍR aðeins lengri tíma í að finna sitt flæði en Tyler Johns kveikti í Breiðhyltingum þegar hann jafnaði leikinn 15-15 með tilþrifum þar sem hann tróð boltanum ofan í körfuna með látum.

Í laglegri byrjun Stjörnunnar var William Gutenius allt í öllu en hann gerði átta stig á fyrstu fimm mínútunum. Gæði ÍR-inga jukust til muna eftir því sem leið á fyrsta fjórðung og þegar leikhlutinn kláraðist voru gestirnir þremur stigum yfir 22-25.

Annar leikhluti var afar kaflaskiptur. Martin Paasoja átti ansi neyðarlegt atvik þegar hann misnotaði galopið sniðskot. Gutenius svaraði með þriggja stiga körfu. Stjarnan gerði átta stig í röð og Ísak Wíum, þjálfari ÍR, tók leikhlé. Eftir leikhlé Ísaks svaraði ÍR með sjö stigum í röð sem neyddi Inga Þór Steinþórsson, þjálfara Stjörnunnar, til að bregðast við með sama hætti og Ísak.

Hákon Örn Hjálmarsson byrjaði á bekknum og miðað við spilamennskuna í fyrri hálfleik tók hann því persónulega. Hákon fór á kostum og gerði átján stig. Staðan í hálfleik var 49-48.

Stjarnan tók frumkvæðið í seinni hálfleik og gerði ellefu stig í röð. Heimamenn spiluðu sterka vörn og ÍR gerði ekki körfu úr opnum leik á fyrstu fjórum mínútum síðari hálfleiks. Ragnar Örn Bragason setti síðan niður kærkominn þrist fyrir gestina.

Líkt og áður í leiknum tókst Stjörnunni ekki að slíta ÍR frá sér þrátt fyrir áhlaup. Gestirnir gerðu vel í að koma til baka. Leikmenn beggja liða voru fastir fyrir í þriðja leikhluta sem setti auka krydd á bráðskemmtilegan leik.

Þriggja stiga körfur Stjörnunnar drógu tennurnar úr ÍR í þriðja leikhluta en heimamenn settu niður sex þriggja stiga skot og voru níu stigum yfir þegar haldið var í síðasta fjórðung 73-64.

Gestirnir úr Breiðholti voru ekki nógu beittir í fjórða leikhluta og Stjarnan gekk á lagið. Stjarnan var að frákasta töluvert betur en ÍR-ingar og reyndust sóknarfráköst Stjörnunnar ansi dýr fyrir gestina. Stjarnan vann á endanum sannfærandi átján stiga sigur 94-76.

Af hverju vann Stjarnan?

Leikurinn var í járnum í fyrri hálfleik en Stjarnan var töluvert sterkari á svellinu í seinni hálfleik. Heimamenn spiluðu betri vörn og fækkuðu töpuðum boltum.

Hverjir stóðu upp úr?

Friðrik Anton Jónsson spilaði sinn besta leik á tímabilinu í kvöld. Friðrik var lykilhlekkur í því að Stjarnan vann leikinn þar sem hann setti niður stór skot þegar á þurfti. Friðrik gerði 16 stig og tók 10 fráköst.

William Gutenius var stigahæstur á vellinum með 26 stig. Einnig tók hann 16 fráköst og var framlagshæstur með 35 framlagspunkta. 

Hvað gekk illa?

ÍR byrjaði þrjá af fjórum leikhlutum illa sem gerði gestunum erfitt fyrir. Framan af leik náði ÍR alltaf að svara áhlaupum Stjörnunnar en undir lokin var tankurinn tómur og Stjarnan gekk á lagið sem varð til þess að ÍR tapaði með átján stigum.

ÍR gaf aðeins ellefu stoðsendingar í öllum leiknum en til samanburðar var það jafn mikið og Adama Darbo.

Hvað gerist næst?

Stjarnan fer í Ljónagryfjuna og mætir Njarðvík næsta fimmtudag klukkan 20:15.

Föstudaginn 3. febrúar mætast ÍR og Grindavík klukkan 18:15.

Ísak Wíum: Merki um karakterleysi

Ísak Wíum var svekktur eftir tap kvöldsinsVísir/Bára Dröfn

Ísak Wíum, þjálfari ÍR, var svekktur með hvernig hans menn enduðu leikinn.

„Ég var mjög svekktur með niðurstöðuna. Mér fannst menn sýna merki um karakterleysi. Þetta var leikur sem bæði lið þurftu að vinna og við getum ekki leyft okkur að tapa frákastabaráttunni eins og við gerðum ásamt því hættum við að hreyfa boltann í seinni hálfleik,“ sagði Ísak Wíum svekktur með átján stiga tap.

Ísak fannst vanta vilja og hjarta í liðið þrátt fyrir að það væru bara klisjur. 

„Ég veit að þetta eru klisjur en mér fannst vanta vilja og hjarta í þennan leik. Við lendum alltaf í vandræðum þegar hlutir falla ekki með okkur.“

„Þetta var leikur áhlaupa þar sem bæði lið voru alltaf að skora 8-10 stig eftir leikhlé og það er hægt að segja að það hafi verið óheppilegt hvernig við byrjuðum leikhlutana.“

Ísak útskýrði hvers vegna Hákon Örn HJálmarsson byrjaði á bekknum í kvöld en hann gerði 22 stig í leiknum.

„Hákon var á bekknum í síðasta leik líka. Við erum með þrjá góða bakverði og við viljum hafa tvo inn á í einu og menn rúlla bara eftir því hvernig þeir standa sig,“ sagði Ísak Wíum að lokum.

 

Bein lýsing

Leikirnir


    Fleiri fréttir

    Sjá meira