Handbolti

Sænski þjálfarinn refsar sínum ­mönnum fyrir að vera valdir menn leiksins

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Andreas Palicka ver hér úr dauðafæri frá Elliða Snæ Viðarssyni í leik Íslands og Svíþjóðar í milliriðli á HM í handbolta.
Andreas Palicka ver hér úr dauðafæri frá Elliða Snæ Viðarssyni í leik Íslands og Svíþjóðar í milliriðli á HM í handbolta. Getty/Adam Ihse

Sænski markvörðurinn Andreas Palicka var stórkostlegur á móti Íslandi á dögunum en hann var hins vegar hvergi sjáanlegur í næsta leik Svía sem var á móti Portúgal í lokaumferð milliriðilsins.

Glenn Solberg, þjálfari sænska landsliðsins, er nefnilega með sérstaka hefð. Hann refsar sínum leikmönnum fyrir að vera valdir menn leiksins á þessu heimsmeistaramóti.

Svíar eru komnir í átta liða úrslit keppninnar með fullt hús stiga en Evrópumeistararnir hafa verið mjög sannfærandi á mótinu til þessa. Breiddin í þessu öfluga liði er svakalega og það nýtir Solberg sér með sérstökum hætti.

Aftonbladet fjallar hér um refsginu þjálfarans.Aftonbladet

Í viðtölum eftir Íslandsleikinn þar sem Andreas Palicka varði hvað eftir annað frá íslensku strákunum í dauðafæri þá talað markvörðurinn um þann möguleika að hann væri að missa af næsta leik.

„Það er refsingin sem við fáum,“ sagði Andreas Palicka léttur.

Jú það fer ekkert á milli mála að sænsku leikmennirnir sem hafa verið valdir menn leiksins á þessu HM í handbolta hafa ekki fengið að spila í næsta leik.

Það er ein pínulítil undantekning. Hampus Wanne spilaði í tvær mínútur á móti Íslandi en það var aðeins vegna þess að hinn vinstri hornamaðurinn, Lucas Pellas, var rekinn af velli í tvær mínútur.

Andreas Palicka missti af leik eftir að hafa verið valinn bestur á móti Brasilíu og sömu sögu er að segja af Mikael Appelgren eftir stórleik hans á móti Grænhöfðaeyjum. Markvörðurinn Tobias Thulin var bestur á móti Úrúgvæ en spilaði ekki næsta leik. Hampus Wanne var settur á bekkinn eftir að hafa verið bestur á móti Ungverjum og svo aftur Palicka eftir stórleikinn á móti Íslandi.

Hægri hornamaðurinn Daniel Pettersson var valinn bestur í sigrinum á Portúgal og hann þarf væntanlega að dúsa á bekknum í átta liða úrslitunum á móti Egyptum.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×