Skoðun

Segðu frá

Jokka G Birnudóttir skrifar

Virkar svo auðvelt, en getur verið svo erfitt.

Er við hittum vini, ættingja, samstarfsfólk er oftar en ekki spurt? „Jæja, hvað segirðu þá?” og áður en viðkomandi getur svarað er bætt við „ertu ekki bara hress?” Eða „Er ekki alltaf nóg að gera hjá þér?”Við spyrjum og svörum fyrir viðkomandi og erum svo farin annað.

Samfélagið okkar býður ekki upp á að við getum sagt; „Mér líður bara ekki vel í dag”

Samfélagið í dag hvetur okkur til að leita okkur hjálpar ef eitthvað amar að, en við ætlum samt ekki að gefa okkur tíma til að hlusta.

Sjálfvígstíðni karlmanna er há, og hefur ekki náðst að lækka þá tölu þrátt fyrir að Norðurlöndin í kringum okkur virðist ganga betur með það.

Karlmenn eru sagðir með lítið tilfinningalæsi, og ég spyr afhverju er það? Erum við enn að kenna strákunum okkar að bíta á jaxlinn og harka af sér? Eru karlmenn enn með þá trú að þeir megi ekki gráta og eigi að vera einhverjar hetjur sem fara bara út að vinna og helst vinna sig í hel?

Getur verið að við höfum ekki enn „gefið” þeim leyfi til að leita sér hjálpar eftir áföll?

Áfall getur verið að af ýmsum toga. Alist upp við vanrækslu, einelti, heimilisofbeldi, kynferðisofbeldi, misst foreldra, vini, maka, allt sem er högg á sálina getur valdið áfalli sem situr í taugakerfinu.

Afleiðingar ofbeldis eru margþættar, hjá drengjum getur það verið þunglyndi, kvíði, skert sjálfsmynd, einangrun, líkamleg vanlíðan, ofbeldishneygð, áhættuhegðun, drykkja, fíkniefnaneysla og afbrot.

Með því að skoða rannsóknir á afleiðingum ofbeldis má sjá að sjúkraskýrslur kvenna sem lent hafa í ofbeldi eru þykkar, á meðan afbrotaskýrslur karla sem lent hafa í ofbeldi eru langar. Rannsókn sem gerð var á föngum sýndi að stór hópur þar á meðal hafði lent í áfalli á sínum yngri árum.

En hvernig getum við hjálpað?

Með því að spyrja og hlusta. Með því að gefa strákunum okkar rými og tíma, með því að leyfa þeim að segja frá og hjálpa þeim að vinna úr áföllum. Með því að viðurkenna að strákar verða fyrir ofbeldi.

Segjum frá.

Höfundur er ráðgjafi fyrir þolendur ofbeldis.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Skoðun

Er þetta eðli­legt?

Guðrún Árnadóttir,Guðrún Tara Sveinsdóttir,Hekla Kollmar,Þorgerður Jörundsdóttir skrifar

Sjá meira


×