Umfjöllun og myndir: Ís­land - Portúgal 30-26 | Strákarnir okkar hófu HM loks á sigri

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Bjarki Már Elísson var markahæstur í íslenska liðinu í kvöld.
Bjarki Már Elísson var markahæstur í íslenska liðinu í kvöld. Vísir/Vilhelm

Í fyrsta sinn frá 2011 byrjaði íslenska karlalandsliðið í handbolta HM með sigri. Strákarnir okkar unnu Portúgal, 30-26, í hörkuleik í Kristianstad í kvöld.

Leikurinn var hnífjafn nánast allan tímann. Staðan í hálfleik var jöfn, 15-15, og þegar tíu mínútur voru eftir var enn jafnt, 24-24. En Ísland átti sinn besta kafla í leiknum síðustu tíu mínúturnar og vann þær, 6-2, og leikinn, 30-26.

Bjarki Már Elísson var markahæstur í íslenska liðinu og á vellinum með níu mörk og Ómar Ingi Magnússon skoraði sjö. Hann spilaði hverja einustu sekúndu í leiknum. Sigvaldi Guðjónsson og Elliði Snær Viðarsson skoruðu fjögur mörk hvor.

Björgvin Páll Gústavsson var frábær í markinu og varði fimmtán skot, eða 44 prósent þeirra skota sem hann fékk á sig, auk þess að skora síðasta mark Íslands í leiknum. Viktor Gísli Hallgrímsson kom inn á í seinni hálfleik og varði fjögur skot (36 prósent).

Maður leiksins var samt líklega Elvar Örn Jónsson sem skilaði einni bestu varnarframmistöðu sem sést hefur í háa herrans tíð. Þrátt fyrir að vera minni en nánast allir mótherjar sínir tapaði hann ekki einvígi, var úti um allt og slökkti elda hvað eftir annað. Magnaður leikur hjá Selfyssingnum.

Elvar Örn brá sér líka í sóknina þegar það átti við.Vísir/Vilhelm

Mistökin lagfærð

Íslenska vörnin var mjög sterk, sérstaklega í seinni hálfleik þar sem Portúgalir skoruðu aðeins ellefu mörk. Sóknin var misgóð og framan af gerði íslenska liðið sér lífið erfitt með því að tapa boltanum klaufalega. En það lagaðist svo um munaði. Ísland tapaði boltanum átta sinnum í fyrri hálfleik en ekki einu sinni í þeim seinni.

Fyrirliðinn Aron Pálmarsson náði sér ekki á strik í sókninni en stóð fyrir sínu í vörninni. Hann skoraði tvö mörk líkt og Gísli Þorgeir Kristjánsson sem réðst hvað eftir annað á portúgölsku vörnina en fékk lítið frá dómurum leiksins. FH-ingarnir eiga báðir talsvert inni og vonandi kemur það í leiknum gegn Ungverjalandi á laugardaginn.

Björgvin gaf tóninn

Björgvin Páll byrjaði í markinu og byrjaði af krafti. Hann varði fyrstu þrjú skotin sem hann fékk á sig og vörnin var sömuleiðis öflug.

Björgvin Páll stóð fyrir sínu.Vísir/Vilhelm

Í sókninni var Ómar Ingi allt í öllu og hann kom Íslandi í 7-3. Þá seig á ógæfuhliðina í sókninni, boltinn tapaðist alltof oft og Portúgalir jöfnuðu, 7-7, eftir að hafa skorað fjögur mörk í röð.

Sjálfum sér verstir

Kæruleysið var full mikið í íslensku sókninni í fyrri hálfleik sem sást best á átta töpuðum boltum og nokkrum klikkum úr dauðafærum.

Íslendingar voru alltaf fyrri til að skora í fyrri hálfleik en sóknarmistökin voru of mörg til að ná betra forskoti. Uppstillt var vörnin var góð en Portúgal skoraði fimm mörk eftir hraðaupphlaup.

Bjarki Már Elísson skoraði mest allra í íslenska liðinu í kvöld.Vísir/Vilhelm

Bjarki Már kom Íslandi tveimur mörkum yfir, 15-13, eftir frábæra sendingu Arons en Portúgal skoraði síðustu tvö mörk fyrri hálfleiks og staðan að honum loknum var jöfn, 15-15. Pedro Portela skoraði jöfnunarmarkið úr vítakasti eftir að leiktíminn rann út. Þetta var hans sjöunda mark í fyrri hálfleik en Ómar Ingi var markahæstur Íslendinga með fimm mörk.

Sama spennan var áfram í seinni hálfleik. Ísland var með frumkvæðið en Portúgal var aldrei langt undan.

Alltaf í pilsfaldinum 

Leikurinn virtist þó sveiflast til Íslendinga um miðbik seinni hálfleiks þegar þeir komust þremur mörkum yfir, 21-18, eftir tvö mörk í röð hjá Bjarka Má. Aron kom Íslandi svo aftur þremur mörkum yfir, 22-19, en þá kom góður portúgalskur kafli.

Þeir skoruðu þrjú mörk í röð og jöfnuðu í 22-22. Næstu mínútur héldust liðin í hendur og allt stefndi í æsispennandi lokakafla.

Ótrúlegur Ómar Ingi

Hann var það svo sem en okkar menn voru sterkari á svellinu þá og sýndu mikinn styrk. Þeir skoruðu þrjú mörk í röð og komust í 27-24. Ómar Ingi skoraði það síðasta með ævintýralegu skoti þegar höndin var komin upp.

Ómar Ingi gerði það sem Ómar Ingi gerir í kvöld.Vísir/Vilhelm

Þar með var björninn nánast unninn og hann var endanlega felldur þegar Bjarki Már kom Íslandi fjórum mörkum yfir, 29-25, með sínu níunda marki.

Leonel Fernandes minnkaði muninn í 29-26 en Björgvin kórónaði stórleik sinn með því að skora þrítugasta mark Íslands og verja svo lokaskot Portúgals. Lokatölur 30-26, og loksins fögnuðu Íslendingar sigri í fyrsta leik á HM.


Tengdar fréttir

„Var ekki að hitta en skal bæta það upp í næsta leik“

„Alltaf gott að klára fyrsta leik,“ sagði Aron Pálmarsson, fyrirliði Íslands, eftir fjögurra marka sigur liðsins á Portúgal í fyrsta leik HM í handbolta. Aron var mjög ánægður með að landa sigri í fyrsta leik þó hann, og liðið í heild, hafi ekki verið upp á sitt besta sóknarlega.

„Þetta er bara ein hindrun á leiðinni“

„Þetta var geggjað allt frá því að þjóðsöngurinn byrjaði. Það kom ákveðin gæsahúð sem fylgdi okkur út leikinn,“ sagði markvörðurinn Björgvin Páll Gústavsson eftir fjögurra marka sigur Íslands gegn Portúgal á HM í handbolta, lokatölur 30-26.

„Maður felldi tár yfir þessum stór­kost­legu stuðnings­mönnum“

„Þetta er búið að vera erfiður aðdragandi. Ég skal alveg játa það,“ sagði Guðmundur Guðmundsson, landsliðsþjálfari, aðspurður hvort sigurinn gegn Portúgal í kvöld hafi tekið á taugarnar. Ísland vann fjögurra marka sigur, 30-26, í fyrsta leik sínum á HM og Guðmundi var mjög létt enda andstæðingur kvöldsins ekkert lamb að leika sér við.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira