Tight þéttur í öðrum sigri TEN5ION í röð

Snorri Rafn Hallsson skrifar
tight

Litlu mátti muna í fyrri leik liðanna á tímabilinu sem LAVA vann 16–14 í Nuke. Breytingar hafa þó orðið á liðunum en í hópi TEN5ION voru þeir Tight, Moshii, CaPPiNg!, Pressi og Einarvac. Lið LAVA skipuðu Goa7er, J0n, Stalz, TripleG og Instant.

TEN5ION hafði betur í hnífalotunni og var því í vörn í fyrri hálfleik. Leikmenn LAVA mættu þó ferskir eftir jólafrí, gerðu sér lítið fyrir og unnu fyrstu fjórar loturnar. Gamla tvíeykið Goa7er og Stalz komu sprengjunni fyrir í annarri lotu og Stalz tryggði LAVA þá fjórðu. TEN5ION gerði sér þá lítið fyrir og jafnaði og komst yfir í 5–4. Þrefaldar fellur frá Einarivac og Pressa hleyptu rununni af stað, LAVA voru passívir og blankir um tíma og Tight náði ninjadefuse og síðustu fellunni í 8. lotu.

Liðin skiptust svo á lotum en LAVA kom sér yfir á ný með því að halda ró sinni, ná góðum opnunum og vinna einvígin þegar á réði.

Staðan í hálfleik: TEN5ION 7 – 8 LAVA 

Aftur var lið LAVA öflugt í upphafi hálfleiks og kom sér í yfirburðagóða stöðu. J0n og Stalz voru hvað atkvæðamestir og aftengdi LAVA sprengjuna tvisvar. En þegar TEN5ION loks tókst að klekkja á vörninni og sprengja sprengjuna í 20. lotu var ekki aftur snúið. Einarvac kom henni fyrir strax í lotunni á eftir og ef frá er talin 23. lota vann TEN5ION allar loturnar það sem eftir var leiks.

CaPPiNg! og Einarvac höfðu átt flestar fellur en Tight fór að láta að sér kveða á sama tíma og TEN5ION byggði upp góðan banka. Mikilvægar opnanir gerðu TEN5ION kleyft að brjóta sér leið inn á sprengjusvæðin. Tókst þeim oft að spila vel úr flókinni stöðu og LAVA þurfti oftar en ekki að halda frekar en að láta til skarar skríða. Síðasta lotan hófst á tvöfaldri opnun frá Tight og Moshii og voru J0n og Instant tveir eftir fyrir endurtökuna. Moshii felldi þá báða og sprengjan fékk að springa.

Lokastaða: TEN5ION 16 – 13 LAVA

TEN5ION sem ekki hafði tekist að vinna leik á tímabilinu hefur nú krækt sér í tvo sigra í röð en brekkan upp úr fallsætinu er enn brött.

Næstu leikir liðanna:

  • TEN5ION – Dusty, þriðjudaginn 10/1 kl. 19:30
  • LAVA – Breiðablik, fimmtudaginn 12/1 kl. 19:30

Sýnt verður frá leikjunum á Stöð 2 Esport og á Twitch síðu Rafíþróttasamtaka Íslands.

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira