Handbolti

Al­gjört met í miða­sölu fyrir HM í hand­bolta og síminn stoppar ekki

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Aron Pálmarsson og Bjarki Már Elísson eru í aðalhlutverki hjá íslenska landsliðinu og það gætu farið margar treyjur númer fjögur og átta.
Aron Pálmarsson og Bjarki Már Elísson eru í aðalhlutverki hjá íslenska landsliðinu og það gætu farið margar treyjur númer fjögur og átta. Vísir/Hulda Margrét

Handknattleiksamband Íslands hefur aldrei kynnst annarri eins sölu, annars vegar á miðum á leiki á heimsmeistaramótið í janúar og hins vegar á nýja landsliðsbúningnum. Gaupi ræddi við framkvæmdastjóra Handknattleikssambands Íslands.

Handboltaæði hefur heltekið landann í aðdraganda heimsmeistaramótsins í handbolta og muna menn ekki aðra eins stemmingu fyrir stórmót í handbolta. HSÍ búið að selja fjögur þúsund miða á leiki Íslands í Svíþjóð sem er met.

„Við höfum aldrei kynnst öðru eins, eins og staðan er núna,“ sagði Róbert Geir Gíslason, framkvæmdastjóri Handknattleikssambands Íslands.

Hafa ekki séð aðrar eins tölur

„Miðasalan er búin að vera gjörsamlega frábær. Við áttum fund með mótshöldurum í morgun og þeir höfðu aldrei séð aðrar eins tölur frá þjóð utan Skandinavíu. Þetta er búið að vera frábært,“ sagði Róbert Geir.

„Við erum búnir að selja yfir fjögur þúsund miða allt í allt og erum því að búast við því að á leikjunum verði að meðaltali þúsund manns. Það er aðeins minna á fyrsta leik í milliriðli en að öðru leyti er þetta frábært,“ sagði Róbert.

„Það eru síðan þrjár vélar frá Icelandair á leiðinni fyrir milliriðilinn og þetta er stórkostlegt,“ sagði Róbert.

Reiknar þjóðin með verðlaunum?

„Þetta segir mér það að þjóðin reiknar með verðlaunum,“ sagði Guðjón Guðmundsson.

Klippa: Handboltaæði á Íslandi með metsölu á HM-miðum og landsliðsbúningum

„Þau reikna alla vega með því að okkur gangi vel. Við erum með frábært lið en það er ekkert hólpið að við komust í milliriðil enn þá. Við erum í gríðarlega erfiðum riðli með Ungverjalandi og Portúgal. Þeir tveir leikir í byrjun setja svolítið upp hvernig mótið muni ganga hjá okkur,“ sagði Róbert.

„Við erum með frábært lið, við eigum von á frábæru móti og vonandi gengur okkur vel. Það er of snemmt að vera fara að tala um verðlaun alveg strax,“ sagði Róbert.

Kaupa nýja landsliðsbúninginn í jólapakkann

Nýju landsliðsbúningurinn selst líka vel eins og miðarnir á heimsmeistaramótið.

„Við höfum aldrei séð aðra eins sölu eins og núna fyrir jólin. Það er búin að vera algjör metsala og fólk streymir hér að til að kaupa hann í jólapakkann. Svo verðum við líka með sölu á meðan mótinu stendur úti. Við eigum því von á því að stúkan verði blá í Svíþjóð,“ sagði Róbert.

Íslenski hópurinn mun koma saman 2. janúar og hefur æfingar. Liðið fer síðan til Þýskalands 6. janúar og mætir lærisveinum Alfreðs Gíslasonar í tveimur vináttulandsleikjum, 7. og 8. janúar. Liðið færir sig síðan yfir til Svíþjóðar 10. janúar en fyrsti leikurinn er við Portúgal 12. janúar.

Topp átta gefur sæti í forkeppni ÓL 2024

Margir líta á sem svo að lágmarksárangur íslenska liðsins sé að ná sæti í forkeppni fyrir Ólympíuleikana í París 2024.

„Það er topp átta sem fólk er að horfa í þar. Við höfum væntingar til liðsins, það er ekki spurning. En eins og ég sagði áðan þá þurfum við að byrja á byrjuninni. Við þurfum að byrja á þessum tveimur erfiðu leikjum sem við eigum við Portúgal og Ungverjaland í byrjun. Þeir leikir slá tóninn fyrir mótið. Sigur í þeim tveimur þá eru okkur allir vegir færir en við þurfum alltaf að byrja á byrjuninni. Okkur langar öllum í forkeppnina fyrir Ólympíuleikana,“ sagði Róbert en hefur hann séð áður eins mikinn áhuga á landsliðinu í handbolta.

Síminn stoppar ekki

„Nei ekki síðan ég byrjaði að vinna hérna fyrir nítján árum. Þetta er búið að vera algjört met í miðasölu fyrir mótið og síminn stoppar ekki. Treyjusalan fer ævintýralega vel af stað. Við vonum bara að það verði framhald á þessu,“ sagði Róbert.

Hér fyrir ofan má sjá viðtalið við Róbert sem og þegar stuðningsmaður landsliðsins í handbolta númer eitt, Dagur Steinn Elfu Ómarsson, fékk fyrstu landsliðs treyjuna afhenta frá formanni HSÍ, Guðmundi B. Ólafssyni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×