Handbolti

Guð­mundur fær auka dag til að velja hópinn fyrir HM

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Guðmundur Guðmundsson, landsliðsþjálfari.
Guðmundur Guðmundsson, landsliðsþjálfari. EPA-EFE/Tamas Kovacs

Guðmundur Guðmundsson, landsliðsþjálfari íslenska karlalandsliðsins í handbolta, fær auka dag til að taka lokaákvörðun varðandi íslenska hópinn sem fer á HM í janúar.

Upphaflega stóð til að kynna hópinn á morgun, fimmtudaginn 22. desember, en nú hefur HSÍ ákveðið að færa ákvörðunina til klukkan 11.00 á Þorláksmessu. 

Mikil spenna ríkir fyrir HM sem fram fer í Svíþjóð og Póllandi frá 11. til 28. janúar næstkomandi. Jafnframt ríkir mikil spenna varðandi íslenska hópinn en ljóst er að Guðmundur þarf að skilja nokkra einkar frambærilega leikmenn eftir með sárt ennið.

Íslenski hópurinn heldur til Þýskalands þann 6. janúar og leikur tvo vináttuleiki við Þýskaland áður en haldið verður til Svíþjóðar þann 10. janúar. Ísland mætir svo Ungverjalandi, Portúgal og Suður-Kóreu í riðlakeppni HM. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×