Viðskipti innlent

Yay fer í útrás til Írlands

Árni Sæberg skrifar
Frank Byrne, frá Olympia Capital, Lorcan Burke, frá Yay Venture Ireland, og Ari Steinarsson, framkvæmdastjóri Yay.
Frank Byrne, frá Olympia Capital, Lorcan Burke, frá Yay Venture Ireland, og Ari Steinarsson, framkvæmdastjóri Yay. Yay

Íslenska fjártæknifyrirtækið Yay hefur samið við írska fjárfestingarfyrirtækið Olympia Capital um uppsetningu, sölu og dreifingu á þjónustu Yay á Írlandi. Yay er helst þekkt fyrir að hafa haldið utan um ferðagjöfina fyrir íslenska ríkið í gegnum gjafabréfakerfi sitt.

„Þetta er annar samningurinn á þessu ári sem við gerum um nýtt markaðssvæði svo við erum afar ánægð með árangurinn á árinu,“ er haft eftir Ara Steinarssyni, framkvæmdastjóri Yay.

Fyrri samningurinn var gerður í sumar þegar Yay samdi við kanadíska kortaþjónustu- og fjármálatæknifyrirtækið Everyday People Financial Inc. um innreið gjafakorta Yay á markað í Kanada.

„Okkar fókus núna er að koma þessum nýju markaðssvæðum upp og einnig erum við að undirbúa frekari fjölgun markaðssvæða. Það eru þó nokkrir markaðir komnir að samningaborðinu. Það er því margt spennandi og áhugavert í gangi hjá okkur. Kanada var fyrsti samningurinn og nú Írland sem er jafnframt fyrsta markaðssvæði Yay í Evrópu fyrir utan Ísland. Við erum að horfa núna meira á markaði í mið og austur Evrópu í framhaldinu,“ er haft eftir Ara.

Í tilkynningunni segir að Olympia Capital sé írskt fjárfestingarfyrirtæki með áratugareynslu af því að koma vörum á írskan markað.

„Nýsköpun og tækni Yay gerir okkur kleift að koma með nýja og spennandi vöru á markað á Írlandi. Það ríkir mikil samkeppni á gjafakortamarkaðnum á Írlandi sem gerir þetta enn meira spennandi. Þessi einstaka nálgun fyrir viðskiptavini mun gera okkur fært að hafa mikil og jákvæð áhrif á írska markaðinn. Við hlökkum til að starfa náið með Yay á Íslandi í þessu verkefni,“ er haft eftir Lorcan Burke, framkvæmdastjóra Yay Venture Ireland sem var stofnað í kringum verkefnið, að því er segir í tilkynningunni.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×