Viðskipti innlent

Erling frá Deloitte til Carbfix

Atli Ísleifsson skrifar
Erling Tómasson viðskiptafræðingur og endurskoðandi.
Erling Tómasson viðskiptafræðingur og endurskoðandi. Aðsend

Erling Tómasson viðskiptafræðingur og endurskoðandi hefur verið ráðinn til að stýra rekstri og fjármálum Carbfix. Hann hefur nú þegar tekið til starfa. 

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Carbfix. Þar segir að Erling hafi áður verið meðeigandi hjá Deloitte þar sem hann hafi sinnt fjármála- og upplýsingatækniráðgjöf, meðal annars til nýsköpunarfyrirtækja. 

„Hjá Deloitte bar Erling m.a. ábyrgð á ráðgjöf í tengslum við kaup og sölu fyrirtækja og nýtingu upplýsingtækni til að stuðla að skilvirkum rekstri.

Erling starfaði í átta ár í Svíþjóð, sem fjármálastjóri tveggja fyrirtækja í örum vexti og síðar hjá Deloitte í Stokkhólmi. Þar áður var Erling meðeigandi hjá Deloitte Íslandi,“ segir í tilkynningunni.

Haft er eftir Erling að Carbfix sé ákaflega spennandi fyrirtæki, enda brautryðjandi í þróun nýrra lausna til varanlegrar kolefnisförgunar. „Það liggur fyrir að slíkar lausnir eru nauðsynlegar til að ná loftslagsmarkmiðum heimsins og ég hlakka mjög til að taka þátt í áframhaldandi þróun fyrirtækisins,“ segir Erling.

Um Carbfix segir að félagið hafi í tíu ár, eða allt frá árinu 2012, fangað CO2 frá Hellisheiðarvirkjun, blandað það ferskvatni og dælt ofan í basaltjarðlög þar sem það umbreytist í stein með náttúrulegum efnahvörfum. „Hefur sú aðferð til varanlegrar og öruggrar förgunar á CO2 vakið heimsathygli. Fyrr í sumar var tilkynnt að verkefni Carbfix um Coda Terminal, móttöku- og förgunarstöð fyrir CO2 í Straumsvík, væri eitt af 17 verkefnum sem hljóta styrki upp á alls 1,8 milljarða evra frá Nýsköpunarsjóði Evrópu (Innovation Fund).“





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×