Rafíþróttir

11. umferð CS:GO | Fyrsti sigur TEN5ION | Atlantic efstir

Snorri Rafn Hallsson skrifar
11 umferð lið

11. umferð Ljósleiðaradeildarinnar í CS:GO fór fram í vikunni en nú er leikmannaskiptaglugginn opinn þar til deildin hefst á ný í janúar.

Leikir vikunnar

Dusty 0 – 1 Viðstöðu

Ekkert varð af fyrsta leik umferðarinnar vegna tímaárekstrar en Dusty keppti í ESEA deildinni gegn Team Impression og hvorugan leikinn var hægt að færa. Dusty vann Team Impression 2–1 en Viðstöðu hafði 2 stig upp úr leiknum sem ekki fór fram.

Þór 19 – 17 SAGA

Viðureign Þórs og SAGA í var í senn jöfn og ójöfn. Í upphafi leiks fór SAGA létt með að koma sprengjunni fyrir og verja aðgerðum Þórs og komst liðið í 4-0. Þór jafnaði þó um leið og liðið gat vopnast almennilega en enn átti SAGA greiða leið inn á sprengjusvæðið og var staðan því 10-5 SAGA í vil í hálfleik. Þór hélt uppi góðri pressu í sóknarleik sínum og minnkaði muninn snarlega í 11-10 áður en SAGA jók forskotið á ný. Herslumuninn vantaði og því þurfti framlengingu til að skera úr um leikinn og þar var Þór öflugra liðið þar sem Peterrr hafði staðið sig einstaklega vel og náð 38 fellum í 36 lotum.

Atlantic 16 – 7 LAVA

Atlantic mætti lítilli viðspyrnu frá LAVA í Mirage, en með sigri gat Atlantic eignað sér fyrsta sætið í deildinni. Leikurinn var jafn framan af en LAVA gekk illa að verja sprengjusvæði A fyrir aðgerðum Atlantic. Fimm lotu runa undir lok hálfleiks tryggði Atlantic gott forskot inn í síðari hálfleikinn sem Bjarni hringdi inn með þrefaldri fellu. LAVA náði sér í lotu hér og þar en Atlantic vann þrisvar sinnum tvær lotur í röð og var sigurinn því þeirra.

Breiðablik 16 – 7 Ármann

Miðjuslagur Breiðabliks og Ármanns fór fram við kjarnorkuverið í Nuke. Ármann komst yfir í 3–1 en eftir það skellti Breiðablik í lás í vörninni og tengdi saman 8 lotur í röð með óttalausum og árásargjörnum fléttum. Blikar höfðu því fimm lotu forskot þegar liðin skiptu um hlutverk. Ármanni tókst að aftengja sprengjurnar í fyrstu tveimur lotum síðari hálfleiks en leikmenn Breiðabliks þéttu raðirnar og unnu síðustu sex lotur leiksins til að stela 5. sætinu í deildinni af Ármanni.

TEN5ION 16 – 10 Fylkir

Umferðinni lauk á botnslag TEN5ION og Fylkis í Nuke. TEN5ION sótti í fyrri hálfleik og vann tólf af fyrstu þrettán lotunum. Arfaslök vörn Fylkis átti ekkert í sókn TEN5ION sem hélt ró sinni í gegnum hálfleikinn og byggði upp ágætis leiki með taktískum fellum frá Moshii á vappanum og góðum skotum CaPPing! Staðan í hálfleik var því 12–3 fyrir TEN5ION sem byrjaði seinni hálfleikinn á að bæta tveimur lotum til viðbótar við markatöluna. Fylki tókst þá að tengja saman sjö lotur með því að nýta sér veikleika í vörn TEN5ION á sprengjusvæði A en Hugo gerði út um leikinn fyrir TEN5ION í síðustu tveimur lotunum með fjórfaldri fellu í 25. lotu og tvöfaldri á síðustu stundu í þeirri 26.

Staðan

Eins og áður segir trónir Atlantic nú eitt á toppnum. Þór og Dusty eru þó skammt undan einungis einum sigri á eftir. Raðirnar hafa þést mikið á miðjunni. LAVA og Breiðablik eru með 12 stig hvort í 4.-5. sæti en Viðstöðu, Ármann og SAGA raða sér í 6.-8. sætið. Fylkir og TEN5ION hafa því dregist töluvert aftur úr en fyrsti sigur TEN5ION á tímabilinu gerir það að verkum að liðið fer í það minnsta ekki stigalaust heim.

Leikmannaskiptaglugginn er nú opinn þar til deildin hefst að nýju eftir jólafrí og verður spennandi að sjá hvaða breytingar liðin gera. Lítið skilur að liðin á toppi deildarinnar og á miðjunni er hart barist um 4. sætið. Ljóst er að mikið þarf til að botnliðin hífi sig upp úr fallsætunum og gæti ferskur andvari í þeim liðum gert gæfumuninn.

Næstu leikir

Ljósleiðaradeildin er nú komin í jólafrí en 12. umferðin fer fram dagana 3. og 5. janúar á næsta ári og er dagskráin eftirfarandi:

  • Þór – Fylkir, þriðjudaginn 3/1, klukkan 19:30
  • Ármann – Dusty, þriðjudaginn 3/1, klukkan 20:30
  • LAVA – TEN5ION, fimmtudaginn 5/1, klukkan 19:30
  • SAGA – Atlantic, fimmtudaginn 5/1, klukkan 20:30
  • Breiðablik – Viðstöðu, fimmtudaginn 5/1, klukkan 21:30

Sýnt verður frá leikjunum á Stöð 2 Esport og á Twitch síðu Rafíþróttasamtaka Íslands.


Tengdar fréttir

Dusty gaf leikinn

Leikur Viðstöðu og Dusty fór ekki fram vegna tímaárekstrar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×