Handbolti

Mestu mistökin að hringja sig aldrei inn meiddan

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Róbert Gunnarsson átti erfið ár hjá Rhein-Neckar Löwen.
Róbert Gunnarsson átti erfið ár hjá Rhein-Neckar Löwen. getty/Stuart Franklin

Róbert Gunnarsson segir mestu mistökin á ferlinum að hafa ekki hlustað betur á líkamann og tekið sér hlé þegar hann var meiddur.

Róbert var gestur Stefáns Árna Pálssonar í öðrum þætti hlaðvarpsins Stórasta landið þar sem fjallað er um framgöngu íslenska handboltalandsliðsins á Ólympíuleikunum í Peking 2008.

Þeir Róbert og Stefán Árni fóru um víðan völl og fjölluðu meðal annars um feril línumannsins í atvinnumennsku. Hann sagði árin í Þýskalandi hafa verið afar krefjandi og hann hafi ekki spilað vel hjá Rhein-Neckar Löwen þar sem hann lék 2010-12.

„Ég var rosa mikið meiddur og mín mistök, eins og ég segi við strákana mína; þú harkar af þér einhvern tittlingaskít en ef þú ert í alvörunni meiddur og þetta hefur hrjáð þig í langan tíma verðurðu bara að taka þér pásu. Það voru mín mistök,“ sagði Róbert.

„Ég var alltaf að drepast í bakinu en meldaði mig aldrei meiddan. Fyrir vikið gat ég ekki neitt. Ég spilaði ekki mikið og þegar ég spilaði var ég lélegur. Þetta voru mín mistök. Ég átti bara að kasta inn handklæðinu og ná mér góðum. Ég gat ekki staðið upp úr rúminu á morgnana.“

Róbert segir að hann sé langt því frá eini leikmaðurinn sem hafa harkað af sér meira en eðlilegt er.

„Það eru ótrúlega margir leikmenn sem eru svona. Harkan er svo mikil. Þú ert alltaf hræddur um næsta samning ef þú ert meiddur eða ert ekki að spila. Þetta er fín lína en þegar ég horfi til baka átti ég bara að segja að ég væri meiddur því þetta byrjaði á fyrsta tímabilinu,“ sagði Róbert.

Hlusta má á annan þátt Stórasta landsins í spilaranum hér fyrir ofan.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.