Skoðun

Er betra að „veifa röngu tré en öngvu“?

Erna Bjarnadóttir skrifar

Andrés Magnússon framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu var gestur í Morgunútvarpi Rásar 2 miðvikudaginn 30. nóvember. Verðbólgan var þar til umfjöllunar og komið inn á samanburð verðþróun matvæla við nágrannalöndin. Því miður stóðst framkvæmdstjórinn ekki þá freistingu að senda innlendum matvælaframleiðendum sneið fyrir að leggja verðbólgudraugnum fóður meðan hann hrósaði sér og sínum fyrir góða frammistöðu. Fullyrti hann að innlendar matvörur ættu drjúgan hlut í verðbólgu undangenginna mánaða.

Það er vissulega rétt hjá framkvæmdastjóranum að verðbólga hér á landi er ein sú lægsta í Evrópu um þessar mundir. Hátt orkuverð og matvælaverð eru drifkraftur verðbólgu í nágranna löndunum.

En til að varpa frekara ljósi á fullyrðingar framkvæmdastjórans um hækkanir á búvöruverði hér á landi og áhrif á verðbólgu til samanburðar við það sem gerist í nágrannalöndum má bera saman hækkanir á matvælaverði á Íslandi og í Danmörku. Samanburðurinn miðast við október mánuð þar sem danska Hagstofan hefur ekki birt niðurstöður fyrir nóvember.

Í stuttu máli þá nam hækkun á matvöruverði frá október 2021 til október 2022 9,7% hér á landi en 16,5% í Danmörku. Á sama tíma nam hækkun vísitölu neysluverðs 11,4% í Danmörku en 9,4% á Íslandi.

Á þessu tólf mánaða tímabili mældist hækkun á verði á kjöti 17,7% á Íslandi en 18% í Danmörku. Mjólk ostar og egg hækkuðu um 12,1% hér á landi en 25,3% í Danmörku. Þar sem smjör telst til flokksins olíur og feitmeti má geta þess að munurinn þar er enn meiri eða 11,1% hækkun á Íslandi en 37,8% í Danmörku.

Getum við ekki bara verið sammála um að á heildina litið hafi innlend matvælaframleiðsla og innflytjendur staðið sig í að halda aftur af hækkunum á matvælaverði í þeim ólgusjó sem ríkt hefur undanfarna mánuði.

Höfundur er hagfræðingur hjá Mjólkursamsölunni.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


×