Handbolti

Ystads fyrsta liðið til að vinna Flensburg | Óðinn tryggði Kadetten dramatískan sigur

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Óðinn Þór í leik með íslenska landsliðinu.
Óðinn Þór í leik með íslenska landsliðinu. Vísir/Eyþór

Sænska liðið Ystads varð í kvöld fyrsta liðið til að hafa betur gegn þýska stórliðinu Flensburg í B-riðli Evrópudeildarinnar í handbolta, 29-26. Þá var Óðinn Þór Ríkharðsson hetja Kadetten er liðið vann dramatískan eins marks sigur gegn Benfica, 26-25

Flensburg var með fullt hús stiga á toppi B-riðils Evrópudeildarinnar eftir þrjá leiki. Liðið vann meðal annars góðan fimm marka sigur gegn Valsmönnum í seinustu umferð, 32-37.

Teitur Örn einarsson og félagar hans í Flensburg voru hins vegar skrefi á eftir Ystads frá upphafi til enda í kvöld. Heimamenn tóku forystuna strax í fyrstu sókn og leiddu með þremur mörkum þegar flautað var til hálfleiks, staðan 17-14.

Heimamenn juku forskot sitt í fimm mörk strax í upphafi síðari hálfleiks, en gestirnir náðu þó að minnka muninn niður í tvö mörk fljótlega eftir það. Nær komust gestirnir þó aldrei og heimamenn unnu að lokum sterkan þriggja marka sigur, 29-26.

Ystads er nú með fjögur stig eftir fjóra leiki, jafn mörg og Valur og PAUC í öðru til fjórða sæti riðilsins, en Valur og PAUC eigast við í kvöld. Flensburg trónir enn á toppi riðilsins með sex stig.

Þá unnu Óðinn Þór Ríkharðsson og félagar hans í Kadetten Schaffhausen nauman eins marks sigur gegn Benfica í A-riðli, 26-25. Heimamenn í Kadetten náðu mest fimm marka forskoti í síðari hálfleik og voru hársbreidd frá því að kasta frá sér sigrinum, en Óðinn Þór Ríkharðsson reyndist hetja liðsins þegar hann skoraði sigurmarkið með seinasta skoti leiksins.

Óðinn Þór skoraði þrjú mörk fyrir Kadetten í kvöld og liðið situr nú í öðru til þriðja sæti riðilsins með sex stig, líkt og Göppingen.

Að lokum vann Benidorm dramatískan eins marks sigur gegn Ferencváros í B-riðli Valsmanna þar sem sigurmarkið var skorað þegar um fjórar sekúndur voru til leiksloka.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×