Viðskipti innlent

Þrjá­tíu milljónir til verslana í dreif­býli

Atli Ísleifsson skrifar
Verslunarfélag Drangsness er eitt þeirra verkefna sem fær styrk.
Verslunarfélag Drangsness er eitt þeirra verkefna sem fær styrk. Vísir/Vilhelm

Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra hefur staðfest tillögur sérstakrar valnefndar sem fela í sér að þrjátíu milljónum króna verði úthlutað til verslunar í dreifbýli fyrir árin 2022 og 2023. Samningar vegna styrkjanna verða undirritaðir á næstu dögum.

Þetta kemur fram á vef stjórnarráðsins. Um er að ræða tillögur valnefndar um verkefnastyrki sem veittir eru á grundvelli stefnumótandi byggðaáætlunar fyrir árin 2022 til 2036.

Fram kemur að markmiðið sé að styðja við rekstur dagvöruverslana í minni byggðarlögum fjarri stórum byggðakjörnum til að viðhalda mikilvægri grunnþjónustu.

„Framlögin eiga að bæta rekstur verslana og skjóta frekari stoðum undir hann, til dæmis með samspili við aðra þjónustu, breyttri uppsetningu í verslunum og bættri aðkomu.

Alls bárust ellefu umsóknir og samtals var sótt um kr. 41.549.550.

Verkefnin sem hljóta styrk eru:

  • Verslun í Árneshreppi hlýtur styrk að upphæð kr. 6.000.000.
  • Pöntunarþjónusta Hafnartanga, Bakkafirði. Tilraunaverkefni um pöntunarþjónustu, framhald fyrra verkefnis frá 2019 sem er lokið. Verkefnið er styrkt um kr. 1.644.000.
  • Verslunarfélag Drangsness. Smásöluverslun, póstþjónusta, bensín- og olíuafgreiðsla, samfélagshús. Verslunin er styrkt um kr. 7.800.000.
  • Hríseyjarbúðin ehf. Verslunin hlýtur styrk til kaupa á tækjum og búnaði og til rekstrar að upphæð kr. 4.730.000.
  • Verslun í Grímsey hlýtur rekstrarstyrk að upphæð kr. 2.000.000.
  • Lágvöruverslunin Skerjakolla á Kópaskeri. Verslunin hlýtur styrk vegna endurbóta á húsnæði kr. 2.826.000.
  • Gvendarkjör, Kirkjubæjarklaustri. Ljúka á endurbótum á húsnæði og kaupa tæki og búnað. Verslunin er styrkt um kr. 2.500.000.
  • Verslunin Urð ehf., Raufarhöfn. Verslunin hlýtur styrk til viðhalds á húsnæði, kr. 1.000.000 árið 2022 og kr. 1.500.00 árið 2023, alls 2.500.000 kr.

Þriggja manna valnefnd fór yfir umsóknirnar og gerði tillögur til ráðherra. Í valnefnd sátu þau Elín Gróa Karlsdóttir, verkefnisstjóri hjá Ferðamálastofu, Sigurður Árnason, sérfræðingur á Byggðastofnun, sem jafnframt er formaður og Snorri Björn Sigurðsson fyrrverandi forstöðumaður þróunarsviðs Byggðastofnunar,“ segir í tilkynningunni.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×