Skoðun

Seðla­bankinn og eina verk­færið

Andri Reyr Haraldsson skrifar

Nú er ég ekki hagfræðingur, bara einn af þeim spekingum sem þykjast vita best.

Engu að síður er ég nokkuð viss um að Seðlabankanum vantar verkfæri í verkfæratöskuna sína. Buxnalausi rafvirkinn með höfuðljósið leysir ekki vandann þó hann sjái kannski vandamálið.

Hagstjórn Seðlabankans hefur einkennst af úrræðaleysi og endurtekningum, svolítið eins og að slá alltaf inn öryggi sem slær út án þess að athuga hvers vegna útsláttur átti sér stað til að byrja með.

Hækkun stýrivaxta er álíka góð aðferðarfræði og að pissa í skóinn sinn þegar kalt er, afleiðingarnar eru miklu verri en skammgóði vermirinn, þetta veit hver einasti maður sem það hefur prófað.

Seðlabankastjóri sjálfur virðist alltaf stressaður og sveittur þegar hann kynnir nýjustu vaxtahækkanir, og um leið boðar fleiri svona til þess að við höldum okkur örugglega á mottunni. Svolítið eins og hann sé ekki sannfærður um þessar aðgerðir en framkvæmi þær meira af skyldurækni við eitthvað fyrirbæri sem við hin skiljum ekki.

Ef eina hlutverk bankans, peningastefnunefndar og alls þessa bákns er að hækka og lækka vexti ef x er x og y er y þá held ég að Excel gæti allt eins verið seðlabankastjóri. Eða er kannski einhver möguleiki að báknið Seðlabankinn sé í raun ekki að hugsa um hagsmuni okkar allra, ekki einu sinni hagkerfisins í heild sinni?

Excel getur tekið tillit til allra breyta sem settar eru inn í það, hvort sem það er afkoma fólks eða fyrirtækja. Excel forgangsraðar ekki einni grein eða einum hópi fólks ofar öðrum nema það sé ætlunin. Gæti verið að Excel yrði jafnvel mannúðlegri seðlabankastjóri?

Spurning hvort seðlabankastjóri ætti að prófa að pissa í skóinn sinn, það gæti hreinlega víkkað sjóndeildarhringinn og fyllt verkfæratöskuna.

Höfundur er formaður Félags íslenskra rafvirkja.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.