FTX var ein af stærstu rafmyntarkauphöllum heims en fyrirtækið hrundi eins og spilaborg þegar viðskiptavinir gerðu nokkurs konar áhlaup og vildu skipta rafmyntum sínum út fyrir „hefðbundna“ mynt. Lausafjárþurrðin leiddi til þess að FTX var á endanum tekið til gjaldþrotameðferðar í síðustu viku.
Þegar tilkynnt var um að FTX hefði sótt um að vera tekið til endurskipulagningar á grundvelli bandarískra gjaldþrotalaga tók John Ray þriðji við af Sam Bankman-Fried sem forstjóri. Ray var skiptastjóri Enron, sem var um skeið stærsta orkufyrirtæki Bandaríkjanna. Það hrundi til grunna eftir að upp komst um stórfellt bókhaldsmisferli þess.
Þrátt fyrir að gjaldþrot Enron sé alræmt í viðskiptasögu Bandaríkjanna sagði Ray í greinargerð sem hann skilaði að hann hefði aldrei á sínum ferli orðið vitni að jafnmikilli óstjórn og algerum skorti á áreiðanlegum upplýsingum um fjármál fyrirtækis og hjá FTX.
Stjórn fyrirtækisins hafi verið á hendi örfárra óreyndra og mögulegra spilltra einstaklinga. Ástandið hjá FTX væri fordæmalaust, að því er AP-fréttastofan greinir frá.
Sjóðir fyrirtækisins notaðir til að kaupa íbúðir og muni fyrir starfsmenn
Greint hefur verið frá því að allt að milljón kröfuhafar gætu verið í þrotabú FTX þegar það verður tekið til gjaldþrotaskipta. Bandarísk yfirvöld rannsaka hvort að fyrirtækið hafi brotið þarlend lög um verðbréf.
Bankman-Fried hefur alls ekki forðast sviðsljósið eftir að hann steig sem hliðar sem forstjóri. Hann hefur meðal annars reynt að útskýra hvað fór úrskeiðis í röð tísta á samfélagsmiðlinum Twitter og í viðtölum við fjölmiðla.
Ray sagði í greinargerð sinni að þær yfirlýsingar Bankman-Fried hefðu verið „reikular og misvísandi“.
Í gjaldþrotaumsókn FTX var gert grein fyrir aragrúa tengdra fyrirtækja víða um heim, meira en 130 talsins. Ray segir að sleifarlag hafi verið á rekstri margra þeirra. Aldrei var haldinn stjórnarfundur hjá mörgum þeirra.
Þá benti Ray á að svo virtist sem að fjármunir FTX hafi verið notaðir til þess að kaupa íbúðir og aðra muni fyrir starfsmenn, meðal annars á Bahamaeyjum. Ekki séu til gögn um sum af þeim kaupum og ákveðnar fasteignir hafi verið skráðar í nafni starfsmannanna sjálfra og ráðgjafa fyrirtækisins.
Fjárfestir í FTX hefur nú stefnt Bankman-Fried og ýmsum stórstjörnum sem tóku þátt í að markaðssetja fyrirtækið eins og Steph Curry og Tom Brady fyrir að valda fjárfestum milljarða dollara fjártjóni.