Viðskipti innlent

Ráðin nýr verkefnastjóri dagskrárgerðar í Hörpu

Atli Ísleifsson skrifar
Ása Berglind Hjálmarsdóttir.
Ása Berglind Hjálmarsdóttir. Harpa

Ása Berglind Hjálmarsdóttir hefur verið ráðin sem verkefnastjóri dagskrárgerðar í Hörpu.

Þetta kemur fram í tilkynningu þar sem fram kemur að hún hafi þegar tekið til starfa og að um sé að ræða tímabundna stöðu til eins árs.

Ása Berglind lauk meistaraprófi í menningarstjórnun með áherslu á nýsköpun og frumkvöðlastarf frá Háskólanum á Bifröst árið 2021. Hún lauk BA gráðu frá tónlistardeild Listaháskóla Íslands árið 2007 og lærði einnig listkennslu á meistarastigi í sama skóla.

Haft er eftir Svanhildi Konráðsdóttur, forstjóra Hörpu, að ráðning verkefnastjóra dagskrárgerðar sé mikilvægur liður í innleiðingu á dagskrárstefnu Hörpu sem styðji við menningarlegt og samfélagslegt hlutverk hússins. „Ása Berglind býr yfir víðtækri reynslu úr menningar- og tónlistarlífinu á Íslandi. Markmið okkar er að auka fjölbreytni í viðburðahaldi í Hörpu með áherslu á hágæða alþjóðlega tónlistarviðburði, frumsköpun og samstarf við fjölbreyttan hóp stofnana, hátíða og einstaklinga“, segir Svanhildur.

Nýtt dagskrárráð Hörpu

Þá segir í tilkynningunni að stjórn Hörpu hafi jafnframt skipað dagskrárráð til tveggja ára í kjölfar tilnefninga frá fagfélögum tónlistariðnaðarins. „Ráðið skipa Ásmundur Jónsson, Elísabet Indra Ragnarsdóttir, Guðni Tómasson og Sóley Stefánsdóttir. Hlutverk ráðsins er að styðja við mikilvæga innleiðingu og framkvæmd nýrrar dagskrárstefnu Hörpu þannig að húsið uppfylli sem best menningarlegt hlutverk sitt miðað við þann stakk sem því er sniðinn.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×