Handbolti

Fyrsti leikur Ásgeirs með Hauka í kvöld: Ætla ekkert að vera að deyja úr stressi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ásgeir Örn Hallgrímsson með Aroni Kristjánssyni og Þorkatli Magnússyni.
Ásgeir Örn Hallgrímsson með Aroni Kristjánssyni og Þorkatli Magnússyni. Haukar

Ásgeir Örn Hallgrímsson stýrir Haukum í fyrsta skiptið í kvöld þegar liðið mætir Íslandsmeisturum Val á Ásvöllum í Olís deild karla í handbolta. Það er óhætt að segja að það er líklega ekki hægt að byrja á erfiðari mótherja.

Ásgeir Örn kveður nú Seinni bylgjuna og Handkastið en hann mætti í einn lokaþátt og ræddi breytingarnar hjá sér í samtali við Stefán Árna Pálsson.

„Þetta er búin að vera rosaleg vika í íslenskum handknattleik. Rúnar Sigtryggsson hætti með Hauka og tók við Leipzig í þýsku Bundesligunni og í kjölfarið var Ásgeir Örn Hallgrímsson ráðinn þjálfari liðsins. Ásgeir þú ert að taka við uppeldisfélaginu. Ertu spenntur,“ spurði Stefán Árni Pálsson í upphafi þáttarins.

„Já, ég er mjög spenntur og fullur tilhlökkunar. Ég er bara búinn með tvær æfingar og þetta gengur allt enn þá,“ sagði Ásgeir Örn Hallgrímsson en viðtalið var tekið fyrir helgi. Ásgeir hefur væntanlega reynt að nýta helgina vel.

Leikur Hauka og Vals verður sýndur beint á Stöð 2 Sport í kvöld og hefst útsendingin klukkan 19.15.

Félag sem sættir sig ekki við að vera í tíunda sæti

„Þetta verður erfitt og það er mjög krefjandi verkefni fram undan. Það er verk að vinna því Haukar eru félag sem sættir sig ekki við að vera í tíunda sæti. Við ætlum alltaf að vera við toppinn og við ætlum alltaf að vera þarna uppi en við erum þar ekki núna,“ sagði Ásgeir Örn.

Ásgeir Örn Hallgrímssonvísir/bára

„Þá þurfa menn að fara að vinna í sínum málum því liðið er gott. Við erum með frábæra leikmenn og nú þurfum við að ná út úr þeim sem við vitum að þeir geta,“ sagði Ásgeir. Það gerðist mjög fljótt að Ásgeir tók við liðinu.

Var í rauninni lygilegt

„Já mjög. Þetta var í rauninni vera lygilegt. Ég heyri fyrst af þessum í hádeginu á mánudaginn þegar ég er heima með veika dóttur mína. Ég fæ þá símtal frá Þorgeiri (Haraldssyni, formanni) sem er staddur á Flórída í fríi. Hann segir mér þessa fréttir og spyr mig hvort ég sé tilbúinn í þetta,“ sagði Ásgeir.

„Við höfum lauslega rétt svona hluti áður og mér fannst þetta spennandi. Eins og eðlilegt er þá þurfti ég að ræða þetta við fjölskylduna og vinnuveitandann. Ég gat náttúrulega ekki gefið þeim svar strax. Hann gaf mér liggur við fram á kvöld og ég sagðist ætla að gefa honum svar daginn eftir sem ég og gerði. Þetta er svona rúmur sólarhringur sem maður fékk til að hugsa þetta og venjast þessu,“ sagði Ásgeir.

Ásgeir Örn Hallgrímsson í leik með íslenska landsliðinu.Mynd/AP

„Þetta þurfti að gerast mjög hratt því Rúnar fær þetta flotta tækifæri til að taka við Leipzig í Bundesligunni. Haukarnir lögðu áherslu á það að þegar það yrði nokkurn veginn tilkynnt við leikmenn að hann væri að fara þá væri kominn einhvern í staðinn. Þannig að þeir fengju ekki þessa tilfinningu að þær væru þjálfaralausir. Ég er því kominn með þetta í fangið,“ sagði Ásgeir.

Var búinn að fá hundleið á þessu

„Mér fannst þetta mjög erfitt og ég þurfti töluvert að hugsa þetta. Eftir að ég hætti að spila þá hugsaði ég: Núna er þetta bara búið því ég er búinn að fá hundleið á þessu, það er ekkert gaman að mæta á æfingar og ég er dauðfeginn að geta gert eitthvað annað. Svo líður bara tími og þá er handboltinn bara einhver baktería sem er rosalega erfitt að losna við,“ sagði Ásgeir.

„Svo byrjaði ég að vinna með þér og Seinni bylgjunni og þá var maður mikið inn í þessu, þurfti að horfa mikið á leiki, spá og spekúlera. Þá óx þetta með mér og svo var það í haust sem ég áttaði mig á því að þetta væri eitthvað sem ég ætlaði að setja á planið fyrir næstu ári. Ég hélt að þetta kæmi með Haukana fyrr en eftir þrjú til fjögur ár, að það myndi mögulega losna,“ sagði Ásgeir.

„Ég hugsaði tækifærið bara þannig og hugsa enn þá. Mig langar bara að þjálfa eitt lið á Íslandi. Ég ætla bara að þjálfa Hauka. Ef tækifærið er bara núna þá er það bara núna, þá þarf ég að aðlaga mig að því og tækla það,“ sagði Ásgeir.

Veit hvaða leið hann vill fara

Ásgeir segist vera með sýn á það hvernig liðið hans á að spila en viðurkennir að hann sé ekki handviss um hvernig hann komi þeim þangað.

„Ég veit hvaða leið ég ætla að fara en það verður að koma í ljós hvort hún virkar eða ekki,“ sagði Ásgeir. Hann vill þétta vörnina og að menn láti finna meira fyrir sér. Hann vill líka spila miklu hraðar.

Haukarnir eru í vandræðum, var sparkað út úr Evrópukeppninni og það er mjög krefjandi verkefni að ná að snúa við gengið liðsins.

Sigurjón

„Það er ekkert búið og það er bara nóvember. Það verður enginn meistari í nóvember. Við getum enn þá náð árangri á tímabilinu og við ætlum að ná árangri á tímabilinu. Þá þurfa ég og allir að koma okkur á hvaða línu við ætlum að taka. Ég þekki enga aðra leið heldur en að fara vinna í okkur sjálfum. Þetta krefst fórna og að við leggjum mikið á okkur,“ sagði Ásgeir.

Hef enga reynslu og hef áhyggjur af því

„Ég hef enga reynslu og ég hef áhyggjur af því. Það er augljós veikur punktur en ég hef samt sjálfstraust. Ég hef spilað þennan leik í tuttugu og eitthvað ár og pælt og spekúlerað. Þangað til annað kemur í ljós þá hef ég trú á því að ég sé með þetta og það þýðir ekkert annað fyrir mig,“ sagði Ásgeir.

„Ég ætla ekkert að vera að deyja úr einhverju stressi þótt að þetta sé allt nýtt. Þetta er nýtt en líka eitthvað sem ég þekki mjög vel,“ sagði Ásgeir. Það má finna allt viðtalið hér fyrir neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×