Umfjöllun og viðtöl: KA - FH 27-30 | FH-ingar fyrstir til að vinna í KA-heimilinu

Árni Gísli Magnússon skrifar
FH-ingar unnu góðan sigur fyrir norðan í dag.
FH-ingar unnu góðan sigur fyrir norðan í dag. vísir/Diego

FH vann sterkan 27-30 sigur á KA í Olís deild karla í handbolta norður á Akureyri í dag. FH var sjö mörkum yfir í hálfleik en heimamenn gerðu leikinn spennandi í seinni hálfleik.

Sigurinn er sá fyrsti hjá FH gegn KA fyrir norðan síðan að KA snéri aftur í efstu deild undir eigin nafni árið 2018-19. Síðasti sigur FH fyrir norðan þar á undan var gegn Akureyri Handboltafélagi árið 2015 að undanskildum einum sigri gegn Þór.

Einungis eitt mark var skorað fyrstu 5 mínútur leiksins og voru þar gestirnir að verki. Frá því bættist heldur betur í markaskorunina og voru það gestirnir sem voru mikið beittari. Staðan 4-8 fyrir FH eftir 13 mínútur þegar Jónatan, þjálfari KA, tók leikhlé.

Leikhléið virtist ekki miklu breyta því einungis 5 mínútum seinna voru FH-ingar komnir 7 mörkum yfir, 6-13, og neyddist því Jónatan til að taka annað lekhlé.

Sóknarleikur KA var mjög stirður og hægur í hálfleiknum og fóru þeir oft á tíðum illa með boltann sem gestirnir nýttu sér hið ítrasta með auðveldum mörkum hinu megin í seinni bylgju og hraðaupphlaupum.

Þá voru gestirnir að spila aggressíva vörn og voru áræðnir í sóknarleiknum.

Liðin skiptust á að skora út hálfleikinn og var staðan 12-19 fyrir FH þegar liðin gengu til búningsherbergja.

KA liðið mætti einbeittara til leiks í síðari hálfleiks og minnkuðu muninn jafnt og þétt ásamt því að Bruno Bernat tók nokkra mikilvæga bolta í markinu.

Heimamenn skoruðu fimm mörk í röð og breyttu stöðunni úr 17-23 í 22-23 þegar 11 mínútur voru eftir og gríðarleg stemming var komin í húsið.

FH-ingar vildu þó ekki leyfa KA að jafna leikinn og skoruðu næstu þrjú mörk og fengu smá andrými. KA-menn voru þó ekki af baki dottnir og tókst aftur að minnka muninn niður í eitt mark þegar fjórar mínútur voru eftir og útlit fyrir æsispennandi lokamínútur.

Gestirnir slökktu þó í öllum vonum KA manna með því að skora næstu tvö mörk og fóru að lokum með þriggja marka sigur af hólmi, 27-30.

Af hverju vann FH?

FH-ingar sigra þennan leik í raun á frábærri framistöðu fyrri hálfleiks þar sem þeir keyrðu yfir heimamenn og voru 7 mörkum yfir. Þeir gerðu síðan í nóg í seinni hálfleik til að klára dæmið.

Hverjir stóðu upp úr?

Einar Bragi Aðalsteinsson var frábær sóknarlega með 7 mörk úr 11 skotum og skilaði fínu hlutverki varnarlega.

Sömu sögu er að segja um Birgi Má Birgisson sem skoraði 7 mörk úr 7 skotum og spilaði vörnina vel.

Phil Döhler átti fínan leik í markinu og varði 15 bolta sem gerir 36% markvörslu.

Hjá KA kom Bruno Bernat flottur inn í markið í seinni hálfleik og varði 8 bolta sem gerir 40% markvörslu.

Einar Birgir Stefánsson tók mikið til sín á línunni og skoraði 5 mörk úr jafnmörgum skotum. Þá voru Einar Rafn Eiðsson og Dagur Gautason með 6 mörk hvor.

Hvað gekk illa?

Fyrri hálfleikurinn hjá KA gekk mjög illa og er þetta annar heimaleikurinn í röð sem það gerist sem er áhyggjuefni.

Hvað gerist næst?

KA mætir Fram í Úlfarársdal laugardaginn 19. nóvember kl. 16:15 og FH og ÍR mætast í Kaplakrika mánudaginn 21. nóvember kl. 19:30.

Jónatan: Eins og við séum að koma illa undirbúnir til leiks

Jónatan Magnússon var ósáttur með sína menn í dag.Vísir/Hulda Margrét

Jónatan Magnússon, þjálfari KA, var mjög óánægður með fyrri hálfleik síns liðs eftir þriggja marka tapa gegn FH þar sem gestirnir voru sjö mörkum yfir í hálfleik.

„Mjög kaflaskiptur. Ég horfi á þetta þannig að þessi hola sem við vorum búnir að koma okkur í var of stór því að fyrri hálfleikur var bara ekki góður en ég er mjög ánægður hvernig menn komu inn í seinni hálfleikinn. Það er áhyggjuefni og ég þarf að skoða það klárlega í upplegginu hjá mér og það er að við erum að koma nánast eins og við séum illa undirbúnir til leiks því við eigum fá svör og náum ekki neinu af því sem við ætlum að gera í fyrri hálfleik og bara kraftleysi. Ég er ánægður með karakterinn hjá mínum mönnum í seinni hálfleik, voru frábærir, og vantar lítið upp á að við náum að koma til baka.”

Hvað veldur því að liðið mætir svona illa til leiks tvo heimaleiki í röð?

„Bara get ekki svarað því, eðlilega, ég get ekki svarað því hvað veldur. Auðvitað spila FH-ingarnir hörku vörn, við áttum erfitt með það, svo er Döhler að verja mikið úr dauðafærum og þeir að ná að skora úr dauðafærum. Það var kannski munurinn í fyrri hálfleik að þegar við komumst í færi þá förum við illa með þau en hvað veldur? Jú það má ekki gleyma því að liðin sem við erum að spila við eru að spila vel líka og svo bara núllstillum við okkur í hálfleik. Svo er það líka þannig að við erum komnir upp við vegg og þá fara menn að sleppa sér lausum, það er það sem við þurfum að breyta, við þurfum að mæta svona frá byrjun. Það er málið að menn þurfa að mæta óttalausir og keyra á þetta og vonandi kemur það í næsta leik.”

KA minnkar muninn tvisvar í eitt mark í seinni hálfleik en missa svo FH í bæði skiptin aftur fram úr sér. Það fer mikil orka í að elta svona forskot.

„Svo er það líka að ég hefði átt að bregðast aðeins öðruvísi við þegar við komum þessu niður í eitt en í minningunni reyndar held ég að hafi komið feilsending sem var hraðaupphlaup en það er eitt og annað sem veldur. Auðvitað fór mikil orka í þetta en það hlýtur að hafa verið mikil orka líka í FH að koma þessu í þessa forystu. Við vorum ekki þreyttir, við vorum ekki neitt annað en klárir í hörkuleik fannst mér en vorum það svo ekki en komum svo til baka með kraft og ég hefði viljað fá eitthvað út úr þessu en mér finnst samt sem áður kraftur í þessu og áfram gakk”, sagði Jónatan að endingu.

Einar Bragi: Handbolti gengur út á það að vera fastir eftir línunni

Einar Bragi Aðalsteinsson átti flottan leik í liði FH í dag.Vísir/Hulda Margrét

Einar Bragi Aðalsteinsson, leikmaður FH, átti góðan leik þegar lið hans sigraði heimamenn í KA 27-30 í dag.

„Fyrri hálfleikurinn var okkar, 19-12 í hálfleik, ég hefði viljað sigla þessu þægilega eftir það en eins og við sáum í síðustu umferð þá koma Stjörnumenn hér og missa þetta bara en við sýnum gríðarlegan karakter og mikla liðsheild með því bara að klára þennan leik.”

„Handbolti gengur út á það bara að vera fastir eftir línunni og ef við spilum bara allir jafn fast þá fáum við á okkur bara fá mörk eins og sýndi sig í fyrri hálfleik, 12 mörk er bara ásættanlegt, en ekkert fastari en vanalega”, sagði Einar um aggressívan varnarleik FH-liðsins.

Einar skoraði 7 mörk úr 11 skotum í dag og átti einnig fínan leik varnarlega.

„Ég veit það ekki, ég vil eiginlega ekki sjá hvað ég tók mörg skot, en ég átti góðar rispur hérna í lokin sem var mjög mikilvægt til að klára þennan leik. Jóhann Birgir og Andri Clausen hérna í vörninni með Jóni Bjarna þeir eiginlega sigldu þessu bara heim fyrir okkur.

FH hefur gengið illa að vinna KA fyrir norðan síðastliðin ár og var komið yfir 7 og hálft ár frá síðasta sigri. Nefndi Sigursteinn þjálfari þetta við strákana fyrir leik?

„Nei, hann fór ekki yfir þetta. Þetta er fyrsti leikurinn minn hérna í KA-heimilinu í meistaraflokki þannig að bara frábært að vera 1-0 á mínum ferli.”

Athygli vakti að Einar Andri Einarsson var mættur með liðinu norður í dag og var hluti af þjálfarateyminu. Einar Bragi var spurður hvort Einar Andri væri orðinn aðstoðarþjálfari liðsins?

„Nei, ekki svo ég viti”, sagði Einar Bragi að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira