Körfubolti

Baldur hittir stuðnings­menn körfu­bolta­liðsins fyrir leik ala Heimir Hall­gríms

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ísland - Úkraína. Landsleikur karla sumar 2022 körfubolti KKÍ
Ísland - Úkraína. Landsleikur karla sumar 2022 körfubolti KKÍ

Stuðningsmenn íslenska körfuboltalandsliðsins ætla að standa sig í Laugardalshöllinni í kvöld en það er uppsellt á leikinn og von á mikilli stemmningu á leiknum.

Íslenska liðið getur stigið stórt skref í átt að sínu fyrsta heimsmeistaramótið með sigri á Georgíu en með því verður liðið tveimur sigurleikjum á undan Georgíumönnum í baráttunni um síðasta sætið inn á HM.

Á þessum mikilvægum tímum í sögu karlalandsliðsins í körfubolta hefur verið sett saman ný stuðningsmannasveit hjá landsliðinu og áður en fjörið byrjar í Höllinni þá ætlar hún að gera sér glaðan dag á Ölver í dag.

Í dag verður nefnilega alvöru gameday upphitun fyrir þennan gríðarlega mikilvæga leik í íslenskri körfuboltasögu.

Fyrirmyndin eru vel heppnaðar stuðningsmannasamkomur fyrir leiki karlalandsliðsins í fótbolta á síðustu árum.

Ætlunin er að hefja leik á Ölver klukkan 16.00 í dag en eins og Heimir Hallgrímsson gerði forðum þegar hann var aðstoðarþjálfari og þjálfari fótboltalandsliðsins þá mun Baldur Þór Ragnarsson aðstoðarlandsliðsþjálfari mæta á svæðið klukkan 17.30.

Heimir Hallgrímsson vakti mikla athygli og mikla lukku fyrir þetta framtak sitt á sínum tíma og tókst með því að auka enn frekar tengslin á milli stuðningsmanna og landsliðsins.

Baldur tekur þar léttan töflufund með fyrir stuðningsmannasveitina og fer yfir málin fyrir leik.

Happy Hour verður á söngmjöðnum góða og það verður hitað hressilega upp fyrir átökin fram undan í kvöld. Farið verður síðan upp í Laugardalshöll klukkutíma fyrir leik en leikurinn hefst klukkan 19.30.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×