Handbolti

Stór­leikur Gísla Þor­geirs dugði ekki til

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Gísli Þorgeir átti frábæran leik.
Gísli Þorgeir átti frábæran leik. Twitter@SCMagdeburg

Þýskalandsmeistararnir í Magdeburg náðu aðeins jafntefli á heimavelli gegn Rhein Neckar Löwen í þýsku úrvalsdeildinni í handbolta í kvöld. Þá vann Melsungen góðan sex marka sigur á Göppingen á útivelli.

Magdeburg tapaði naumlega fyrir danska liðinu GOG í Meistaradeild Evrópu í vikunni en hafði verið á góðu skriði heima fyrir. Liðið lék vel á köflum í kvöld og var til að mynda tveimur mörkum yfir í hálfleik.

Þegar líða fór á síðari hálfleikinn virtist hins vegar sem gestirnir myndu hirða sigurinn en Löwen leiddi með tveimur mörkum þegar skammt var til leiksloka. Meistararnir skoruðu hins vegar síðustu tvö mörk leiksins og náðu að bjarga stigi, lokatölur 32-32.

Gísli Þorgeir Kristjánsson var magnaður í liði Magdeburg. Hann skoraði sex mörk og gaf þrjár stoðsendingar. Ómari Ingi Magnússon skoraði þrjú og gaf eina stoðsendingu.

Melsungen vann Göppingen 29-23 og segja má að sigurinn hafi að miklu leyti verið Íslendingum liðsins að þakka. Elvar Örn Jónsson skoraði fjögur mörk og gaf tvær stoðsendingar. Þá skoraði Arnar Freyr Arnarsson þrjú mörk ásamt því að gefa eina stoðsendingu.

Ljónin í Löwen eru í 2. sæti deildarinnar með 17 stig eftir 11 leiki. Magdeburg er í 4. sæti með 15 stig en liðið hefur aðeins leikið 9 leiki. Melsungen er svo í 9. sæti með 12 stig að loknum 11 leikjum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×