Skoðun

Öll börn gera vel ef þau geta

Sólveig María Svavarsdóttir skrifar

Lífið er flókið. Samskipti eru flókin og samskipti barna eru vissulega flókin.

Eineltismál er erfið og og geta skilið eftir sig djúp sár. Ég finn mikið til með þolendum eineltis og fordæmi allar myndir ofbeldis.

Um daginn rak ég augun í blaðagrein og hluti fyrirsagnarinnar var að „gerendur í einelti hrósuðu sigri og fyndu sér ný fórnarlömb”. Þessi fyrirsögn stakk mig.

Þeir sem eru gerendur í einelti sigra aldrei. Þetta eru börn sem koma illa fram því þeim líður illa. Ofbeldið og ill framkoma er svörun þeirra við eigin sársauka og svo margt getur legið að baki.

Allir í eineltismálum þurfa hjálp. Það þarf að skoða alla fleti og veita aðstoð með það að markmiði að börnunum líði betur. Þannig eru minni líkur á ad slíkt endurtaki sig. Undirótin er ekki illska heldur sársauki og vanmáttur.

Jafnframt las ég þónokkrar illa ígrundaðar athugasemdir á Netinu um gerendur eineltis. Athugasemdir sem ég tel síst líklegar til að leysa neinn vanda. Þær myndu án efa valda áframhaldandi sársauka sem er svo undirrót frekara ofbeldis.

Við getum lagað ofbeldi með skilningi á þeim margþætta vanda sem þarna liggur að baki. Það þarf að kafa undir yfirborðið og fara inn í kjarnann. Við getum lagað ofbeldi með því að vinna í okkar eigin sársauka því þá eru minni líkur á að við yfirfærum hann á næstu kynslóð.

Við getum unnið gegn ofbeldi með kærleika og samkennd en aldrei hatri.

Við þurfum að snúa bökum saman frekar en mynda fylkingar. Við þurfum að vinna saman að vellíðan barna því ef börnum líður vel þá gera þau vel!

Höfundur er móðir fjögurra barna og grunnskólakennari. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


×