Körfubolti

Kærir San Antonio vegna leikmanns sem beraði sig níu sinnum fyrir framan hana

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Josh Primo er án félags eftir að San Antonio Spurs rifti samningi hans.
Josh Primo er án félags eftir að San Antonio Spurs rifti samningi hans. getty/Thearon W. Henderson

Fyrrverandi sálfræðingur hjá San Antonio Spurs í NBA-deildinni í körfubolta hefur kært félagið og fyrrverandi leikmanns þess sem beraði sig margoft fyrir framan hana.

Leikmaðurinn sem um ræðir er Josh Primo sem Spurs valdi með tólfta valrétti í nýliðavalinu í fyrra. Spurs rifti samningi hans í síðustu viku og fram kom að hann myndi leita sér sálfræðiaðstoðar vegna áfalla.

Eftir að Primo var látinn fara frá Spurs bárust fréttir af óviðeigandi hegðun hans og að hann hefði berað sig fyrir framan konur sem unnu hjá félaginu. Og nú hefur fyrrverandi sálfræðingur hjá Spurs, Dr. Hillary Cauthen, kært Primo og félagið. Að hennar sögn beraði hann sig níu sinnum fyrir framan hana.

Cauthen segir að Spurs hafi ekki brugðist við kvörtunum sínum vegna framkomu Primos. Lögfræðingur hennar er Tony Buzbee, sá hinn sami og sá um kærurnar á hendur Deshaun Watson, leikstjórnanda Cleveland Browns í NFL, fyrir kynferðislega áreitni.

Í kærunni á hendur Spurs segir meðal annars að félagið hafi fórnað Cauthen til að halda leikmanni sem það vonaðist til að yrði stjarna einn daginn. En þegar ásakanir um athæfi hans hafi komið fram í dagsljósið hafi Spurs verið tilneytt til að láta hann fara. Þær aðgerðir hafi hins vegar verið smávægilegar og komið of seint.

Samkvæmt Buzbee lét Spurs Primo fara eftir að hann beraði sig fyrir framan konu á ferð liðsins til Minnesota þar sem það spilaði við Timberwolves. Þá á hann líka að hafa flassað konu á meðan keppni í sumardeild NBA í Las Vegas stóð í sumar.

Lögfræðingur Primos segir ásakanirnar fráleitar og að hann hafi aldrei viljandi berað sig fyrir framan Cauthen. Hún hafi svo aldrei látið hann vita að kynfæri hans væru sýnileg. Lögfræðingurinn segir jafnframt að Cauthen hafi brugðist trausti Primos sem sé helmingi eldri en hann.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×