Skoðun

Gott sam­fé­lag tryggir gott geð­heil­brigði

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir skrifar

Liðin eru meira en tvö ár frá því að frumvarpið um niðurgreiðslu sálfræðiþjónustu var einróma samþykkt á þingi. Málið flutti ég ásamt þingflokki Viðreisnar og nítján öðrum þingmönnum úr öllum flokkum. Þverpólitísk samstaða náðist þannig um mikilvægar og löngu tímabærar breytingar. Hins vegar komu þær ekki til framkvæmda fyrr en löngu seinna.

Fyrir skömmu var tilkynnt að Sjúkratryggingar Íslands hefðu gert einhliða rammasamning við sálfræðinga um þjónustuna. Þó kemur hvergi fram hversu miklu fjármagni stendur til að verja til málsins. Þá kemur heldur ekki nógu skýrt fram hverjir geta notið niðurgreiddu þjónustunnar eða hve margir tímar af sálfræðimeðferð fást niðurgreiddir. Sálfræðingar hafa gagnrýnt þetta og spurt hvers vegna samtalið við stéttina hafi ekki verið meira en þetta.

Samningurinn er skref í rétta átt en því miður virðist sem upphaflegum markmiðum frumvarpsins hafi ekki verið fylgt nógu vel eftir. Ýmsum spurningum er líka enn ósvarað. Slík óvissa kemur sér afar illa fyrir sálfræðinga og ekki síst skjólstæðinga þeirra. Um leið og frekari skýringa er þörf er sömuleiðis mikilvægt að aðgengi að þjónustunni verði aukið enn frekar, eins og lagt var upp með í byrjun, enda þörfin mikil og vandamálin aðkallandi.

Andleg heilsa á að vera metin jöfn líkamlegri heilsu. Því er ekki nema sjálfsagt að þjónustan sé veitt eins og hver önnur heilbrigðisþjónusta. Öllu máli skiptir að almenningur hafi greiðan aðgang að aðstoð, ekki síst ungt og tekjulágt fólk sem hingað til hefur þurft að neita sér um þessa lífsnauðsynlegu þjónustu, með tilheyrandi afleiðingum fyrir hópana sjálfa og samfélagið í heild, eins og við sjáum helst í hrakandi geðheilsu og vaxandi örorku.

Gott samfélag sér til þess að hjálparþurfi einstaklingar komi ekki að lokuðum dyrum og neyðist til að bera harm sinn í hljóði. Skyldur okkar í stjórnmálum eru því ríkar. Málinu þarf að fylgja eftir af fullum krafti svo tryggja megi viðunandi þjónustu fyrir alla hópa óháð aðstæðum og efnahag. Gleymum ekki að góðu samfélagi ber að tryggja gott geðheilbrigði.

Höfundur er þingmaður og formaður Viðreisnar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Skoðun

Er þetta eðli­legt?

Guðrún Árnadóttir,Guðrún Tara Sveinsdóttir,Hekla Kollmar,Þorgerður Jörundsdóttir skrifar

Sjá meira


×