Körfubolti

Ummæli Huga um Srdan Stojanovic dæmd dauð og ómerk

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ummæli Huga Halldórssonar um körfuboltamanninn Srdan Stojanovic reyndust dýr.
Ummæli Huga Halldórssonar um körfuboltamanninn Srdan Stojanovic reyndust dýr. VÍSIR/BÁRA

Ummæli Huga Halldórssonar um körfuboltamanninn Srdan Stojanovic voru dæmd dauð og ómerk í Héraðsdómi Reykjaness. Þá þarf Hugi að greiða Srdan 150 þúsund krónur í miskabætur.

Í hlaðvarpinu The Mike Show 2. maí 2021 ýjaði Hugi að því að Stojanovic hefði verið flæktur í veðmálasvindl og fyrir leik gegn Njarðvík, sem tapaðist 97-75, hafi verið haldinn krísufundur þar sem rætt var við hann. Ummælin sem féllu í þættinum og voru dæmd dauð og ómerk voru eftirfarandi.

... það hafi verið krísufundur klukkutíma fyrir leik þar sem upp hafi komist um veðmálasvindl hjá Þór Akureyri. Og ákveðinn leikmaður og ég held að það sé allt í lagi að ég nefni það bara að það hafi verið tekinn fundur með Srdan Stojanovic … og þar hafi bara liðið komist að þessu

Þórsarar fordæmdu ummæli Huga og hann baðst svo afsökunar á þeim. Hann kvaðst harma að að hafa gefið í skyn að Stojanovic hafi verið flæktur í veðmálasvindl og dreginn inn í umræðuna um þau.

Í skýrslu fyrir dómi lýsti Srdan því hvaða áhrif ummæli Huga hefðu haft á líðan sína, hann hafi orðið þunglyndur, fólk snúið baki við honum, orðspor hans beðið hnekki og hann hafi ekki fengið nein atvinnutilboð enda hafi fréttir af málinu borist víða.

Í dómi Héraðsdóms Reykjaness 18. október voru ummæli Huga dæmd dauð og ómerk eins og Srdan fór fram á. Hugi þarf ennfremur að greiða Srdan 150 þúsund krónur í miskabætur en ekki 1,5 milljón eins og hann fór fram á. Í dómnum segir að 150 þúsund krónur þyki hæfilegar ákveðnar miskabætur.

Þá var Hugi sýknaður af kröfu Srdans um að greiða honum þrjú hundruð þúsund krónur eða lægri fjárhæð til að standa straum af kostnaði við birtingu dóms, atriðisorða hans og forsenda í dagblaði. Hann þarf aftur á móti að greiða Srdan milljón krónur í málskostnað.

Dóm Héraðsdóms Reykjaness má lesa með því að smella hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×