„Varnarlega vorum við fínir lengst af. Þeir eru að vísu að hitta vel yfir 40% en við höldum þeim í 79 stigum. Svo lendum við í því líka að þeir setja einhver skot Randver ofan í, spjaldið ofan í og einhver svona mjög erfið skot. Fyrst og fremst er ég stoltur af mínu liði hvernig við þröngvuðum þetta í gegn,“ sagði Jóhann Þór við Vísi eftir leikinn í kvöld.
„Við tökum þessi tvö stig, frammistaðan allt í lagi. Sóknarlega erum við mjög stífir og þegar við fáum flæði og búum til góð skot þá hittum við ekki. Við settum stór skot undir restina þegar þess þurfti og þetta var flottur sigur.“
Í þriðja leikhluta náðu ÍR-ingar 11-0 áhlaupi og öll stemmning með þeim. Heimamenn virtust pirraðir en komu til baka fyrir lok fjórðungsins.
„Mjög flottur karakter í þessu. Gaman að sjá líka að það voru fimm grindvískir strákar sem sneru þessu við og komu okkur aftur af stað. Flottur karakter og mikilvægur sigur.“
Tveir grískir leikmenn Grindavíkur léku lítil hlutverk í liðinu í kvöld. Gkay Skordilis lék í rúmar fimmtán mínútur og Evangelos Tzolos aðeins í tæpar fimm mínútur. Jóhann Þór sagði að breytinga væri að vænta á leikmannahópi Grindavíkur.
„Það verða einhverjar breytingar, ég held að það sé í kortunum og svo sem löngu ákveðið. Það voru veikindi í vikunni og þar af leiðandi voru bara tíu til ellefu á æfingum þannig að ég komi hreint fram með það. Það verða gerðar breytingar á hópnum,“ sagði Jóhann Þór Ólafsson að lokum.