Körfubolti

Lögmál leiksins: Leikmannahópur Lakers er hryllingur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
LeBron James og Russell Westbrook geta ekki spilað í sama liði.
LeBron James og Russell Westbrook geta ekki spilað í sama liði. Getty/David Crane

Nýtt tímabil í NBA-deildinni í körfubolta hófst í síðustu viku og í kvöld verður fyrsta vikan gerð upp í þættinum Lögmál leiksins á Stöð 2 Sport 2.

Meðal umræðuefna kvöldsins er byrjun LeBron James og félaga í Los Angeles Lakers en þessa stórveldi deildarinnar hefur tapað þremur fyrstu leikjum sínum og útlitið er ekki bjart. Strákarnir í Lögmáli leiksins tóku meðal annars fyrir Russell Westbrook sem hefur fengið á sig mikla gagnrýni nær allan tímann sinn í Lakers.

„Ef við byrjum á því að skoða tölfræði Russell Westbrook í þessum fyrstu þremur leikjum þá er hún langt frá því að vera viðunandi,“ sagði Kjartan Atli Kjartansson, umsjónarmaður Lögmáls leiksins.

Meira að segja honum tekst það ekki

„Margir töluðu um að að þetta yrði erfitt fyrir Lakers og þessir leikmenn myndu ekki passa saman þegar þessi skipti voru gerð. Lebron og Russell Westbrook geta ekki spilað saman. Ég tek það á mig að ég hugsaði: Lebron vill fá boltann og Lebron er lausnamiðuð stjarna og LeBron James hefur alltaf látið hlutina ganga. Meira að segja honum tekst ekki að koma Russell Westbrook í réttan takt með sér,“ sagði Kjartan Atli.

Klippa: Lögmál leiksins: Umræða um Westbrook og Lakers 24. október 2022

„Svo má bæta við það að hópurinn í kringum þessa fyrstu þrjá er skelfilegur. Við getum haldið því fram að þetta sé með verri hópum deildarinnar. Þegar þú ert kominn í Lonnie Walker, Matt Ryan og ekkert á bekknum. Þetta er hrikalegt,“ sagði Hörður Unnsteinsson.

„Ég myndi byrja strax eftir tvo því Russell Westbrook er ekkert leikmaður í topp áttatíu í NBA-deildinni í dag. Ég myndi ekki endilega vera með hann þar og tölfræðin segir að hann sé ekki þar,“ sagði Sigurður Orri Kristjánsson.

Ekki oft kjaftstopp

„Hann byrjaði allt í lagi á móti Warriors en hann er 4 af 26 í skotum í hinum tveimur leikjunum,“ sagði Tómas Steindórsson.

„Mig rak í rogastans á föstudaginn og ég verð yfirleitt ekki kjaftstopp. Þarna var ég það þegar ég var að horfa á tölfræðina í þessum Lakers-leik á móti Clippers og leikmannahópur Lakers blasti við mér. Þetta er hryllingur,“ sagði Sigurður Orri.

Það má sjá þetta brot úr þættinum hér fyrir ofan en þátturinn fer í loftið klukkan 20.45 á Stöð 2 Sport 2 í kvöld.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×