Skoðun

Þórunn Sveinbjarnardóttir og Ömurlegir eðalkratar

Birgir Dýrfjörð skrifar

20.október s.l. var í Fréttablaðinu ógeðfelld grein eftir Þórunni Sveinbjarnardóttur.

Í niðurstöðu greinarinnar segir; „Það er ömurlegt að fylgjast með svokölluðum eðalkrötum leggja lykkju á leið sína til að koma höggi á Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur.“

Grein sinni lýkur Þórunn með dylgjum að hætti vábeiðu. Hún skrifar; „Ég vona bara að tilvonandi formaður Samfylkingarinnar, Kristrún Frostadóttir, fái að njóta sannmælis“

Mikið er þetta ósmekklegt og ógeðfellt. Þórunn lætur að því liggja að lýðræðis-jafnaðarmenn, sem hún kallar eðalkrata muni ekki láta Kristrúnu Frostadóttir njóta sannamælis sem formaður.

1958 þegar Hermann Jónassonmyndaði ríkisstjórnina, sem færði landhelgina út í 50 mílur, þá sat ég í 25 manna miðstjórn Alþýðuflokksins, og hef starfað í honum og Samfylkingunni alla tíð síðan.

Ég er því oft kallaður eðalkrati, og ég biðst því undan ómaklegum dylgjum Þórunnar.

Nú er spurt, af hverju lætur Þórunn í það skína að, „svokallaðir eðalkratar“ komi í veg fyrir ,að nýr formaður fá notið sannmælis í starfi. Af hverju gerir hún sig svona smáa frammi fyrir alþjóð?

Ég tel mig vita svarið. Það er kunnugt að smár hollustu-hópur heldur því fram að aumur árangur Þórunnar Sveinbjarnardóttur í síðustu Alþingiskosningum sé, „svokölluðum eðalkrötum“ að kenna. Þeir hafi brugðist. Sú kenning stenst ekki. Til þess eru „eðal-kratarnir“ of fáir.

Eftir skipan Þórunnar í efsta sæti þá lýstu margir því yfir, að þeir myndu skila auðu atkvæði á kjördegi. Auðir atkvæðaseðlar reyndust vera 1096. Það var Íslandsmet.

Þessu til viðbótar varð flokkurinn að una 28% fylgistapi frá kosningum þar áður. Þær kosningar voru þó grátlega rýrar í kjörfylgi.

Fylgishrunið var ekki „svokölluðum eðalkrötum“ að kenna.

Þar var mest um að kenna, að lýðræðið var sniðgengið þegar efsta sæti listans var ákveðið.

Venja lýðræðis-krata er, að flokksfólkið fái sjálft að ráða efstu sætum (með prófkjöri).

Efsta sæti listans var troðið með handafli upp í flokksfólk. Því var meinað að koma að skipan þess. Stór hluti kjósenda neitaði að kyngja aðferðinni og skilaði auðu. Aðrir kusu annan flokk, því miður.

Og það var ekki „eðalkrötum“ að kenna, heldur þeim, sem tóku sér það vald að raða einir á listann.

Öll viljum við vera jafnaðarfólk, umburðarlynd og sanngjörn. Gæðaflokkun fólks eftir pólitískum uppruna, að hætti Þórunnar Sveinbjarnardóttur er því ekki bara ósmekkleg.

Hún er ógáfuleg og leiðir til sundrungar í flokknum.

Höfundur er Lýðræðis-jafnaðarmaður (sósíal-demokrati).



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


×